„Hanna Birna vann auðvitað stóran sigur en mér finnst árangur Brynjars ekki síðri því hann er að byrja í stjórnmálum. Stjórnmálafræðingar eiga eftir að greina þessi úrslit en þau tákna breytingu á Sjálfstæðisflokknum að mínu mati,“ segir Pétur H. Blöndal alþingismaður um úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Pétur endaði í þriðja sæti listans. Hann segir í Facebook-færslu, að hann sé sáttur við sína stöðu. Hann hafi ekki lagt mikla vinnu í kosningabaráttuna. Hann segist hafa varið um 400 þúsund krónum í baráttuna, en ekki hringt í kjósendur. Hann segist því hafa verið uggandi síðustu vikur. Niðurstaðan sé hins vegar góð.