Samskipti hjá geð- og sálfélagslegu teymi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, HSS, hafa aukist mjög og eftirspurn heldur áfram að aukast. Nú bíða um 150 manns eftir viðtölum við geðhjúkrunarfræðinga og/eða sálfræðinga.
Þetta kemur m.a. fram í nóvemberpistli Sigríðar Snæbjörnsdóttur, forstjóra HSS, sem birtur er á vef stofnunarinnar. Sigríður segir það hins vegar ánægjuefni að innlögnum íbúa af Suðurnesjum á geðdeild LSH hafi fækkað umtalsvert, sem væntanlega megi þakka öflugri geð- og sálfélagslegri starfsemi í heimabyggð.
Tölur yfir starfsemi HSS fyrstu tíu mánuði ársins sýna að legudögum hefur fjölgað og rúmanýting á sjúkrahúsinu aukist yfir 30% frá sama tíma í fyrra. Hins vegar hefur nýting á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða ekki verið fullnýtt, að sögn Sigríðar, miðað við þau 18 rými sem gert er ráð fyrir í samningi við ríkið.