Innan verkalýðshreyfingarinnar eru uppi þungar áhyggjur af þróun efnahagsmála og kaupmáttar hér á landi. Þetta kom m.a. skýrt fram á sambandsstjórnarfundi Samiðnar sl. föstudag. Þar var rætt um hvað gera skyldi þegar kjarasamningar koma til endurskoðunar eftir áramót.
Ljóst er orðið að forsendur samninganna eru brostnar en óvissa er um hvort reynt verði að ná fram kjarabótum við endurskoðun samninga eða hvort virkja eigi uppsagnarákvæði þeirra. Uppsögn hefði hins vegar í för með sér að ekkert yrði af 3,25% almennri launahækkun sem samningarnir kveða á um 1. febrúar nk.
„Menn hafa áhyggjur af efnahagsástandinu og hvernig farið hefur með efndir kjarasamninga. Miðstjórninni, sem jafnframt er samninganefnd félagsins, var falið að reyna að berja í brestina eins og mögulegt væri og nýta tímann fram að ákvörðun en hún verður síðan tekin þegar fyrir liggur hvernig okkur hefur gengið að fá inn í samningana. Við þurfum að auka kaupmátt með einhverjum leiðum,“ segir Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar, í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.