Voru komnir í flotgallana

Tveir skipverjar á bátnum Jónínu Brynju ÍS, sem strandaði við Straumnes norðan Aðalvíkur á Vestfjörðum í gær, voru komnir í flotgallana þegar þeim var bjargað af þyrlu Landhelgisgæslunnar um klukkan 19:00 í gærkvöldi.

Fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni að mennirnir hafi verið staddir um eina sjómílu norður af Straumnesvita og hafi fundist strax þegar komið var á svæðið. Þeir hafi verið í um tíu metra breiðri fjöru og báturinn brotinn í stórgrýttu flæðarmálinu.

Þá segir að aðstæður hafi verið nokkuð erfiðar. Mjög hvasst hafi verið, 25-30 hnútar, og gengið á með dimmum éljum. Fyrir ofan fjöruna sé þverhnípt klettabelti. Sigmaður hafi sigið niður til mannanna og þeir síðan hífðir upp í björgunarlykkju.

Mennirnir voru síðan komnir um borð í þyrluna klukkan 20:49 og var þá haldið með þá til Ísafjarðar þar sem þeir fóru í læknisskoðun. Þyrlan hélt síðan til Reykjavíkur og lenti þar klukkan 22:40. Nánar er fjallað um slysið í Morgunblaðinu í dag.

Sjá einnig: „Fyrir öllu að mannbjörg varð“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert