Menntamálaráðuneytið hefur staðfest ákvörðun skólastjóra sérskóla í Reykjavík um að neita fötluðu barni um skólavist. Barnið á að halda áfram í grunnskóla þar sem það hefur stundað nám.
Foreldrar barnsins óskuðu eftir að það fengi að stunda nám í sérskóla þar sem þeim þótti fullreynt að skólaganga í almenna skólakerfinu hentaði barninu ekki. Barnið var greint með hreyfiþroskalömun árið 2007 og að sögn foreldranna hefur barninu hrakað líkamlega, andlega og félagslega á liðnum árum. Þau telja að þegar litið er á félagslegu hliðina þá eigi barnið ekki samleið með nemendum í almennum grunnskóla.
Barnið stundaði nám í grunnskóla utan Reykjavíkur og í umsögn menntasviðs sveitarfélagsins segir að sveitarfélagið leitist við að sinna þörfum barnsins eins vel og kostur er. Barnið fái mikinn stuðning í námi og tekið sé tillit til þroskafrávika þess eins og kostur sé. Þoskaþjálfi fylgi barninu eftir í allar námsgreinar, að undanskildum íþróttum. Barnið hafi í framhaldi tekið framförum í íslensku og stærðfræði. Þá sé áætlað að barnið fái þjálfun í félagsfærni í skólanum.
Niðurstaða menntamálaráðuneytisins var að staðfesta ákvörðun skólastjórans að neita barninu um skólavist í sérskólanum.