Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sótti í gær fund EES-ráðsins í Brussel með öðrum utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna og fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.
Meginefni fundarins var yfirferð um stöðu og framkvæmd EES-samningsins. Af Íslands hálfu lýsti utanríkisráðherra þeirri afstöðu, að æ fleiri mál sem taka þurfi upp í samninginn sköpuðu stjórnarskrárbundin vandamál fyrir Ísland, þar sem í þeim fælist framsal valds umfram það sem stjórnarskráin heimilaði. Gæti þetta leitt til vandkvæða varðandi fulla þátttöku Íslands í samningnum í framtíðinni að óbreyttri stjórnarskrá.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að hreinskiptnar umræður hafi verið á fundinum um stöðu makrílmálsins. Utanríkisráðherra mun hafa lýst þeirri skoðun Íslands að þar sem EES-samningurinn tæki ekki yfir fiskveiðar teldi hann ekki rétt að fjalla um málið á þessum vettvangi. Hann lagðist gegn því að ályktað yrði um málið. Hann harmaði jafnframt að ESB og Noregur skyldu ekki treysta sér til að fallast á tillögu Íslands um að þar sem ekki hefði tekist að leysa makríldeiluna skæru allir málsaðilar niður veiðar sínar í hlutfalli við niðurstöðu Alþjóðahafrannsóknarráðsins um nauðsynlega minnkun veiða úr stofninum.
Á sérstökum fundi um stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs ítrekaði utanríkisráðherra að Ísland myndi næstkomandi fimmtudag styðja tillögu forseta Palestínu um aukaaðild landsins að Sameinuðu þjóðunum.