„Það verður að gera eitthvað í þessum viðtölum stjórnarliða við erlenda fjölmiðla, þau eru orðin sérstakur liður í efnahagsvanda ríkisins,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á facebooksíðu sinni í dag.
Tilefni ummælanna eru fréttir þess efnis að viðskipti með skuldabréf Íbúðalánasjóðs hafi verið stöðvuð í Kauphöllinni í morgun vegna viðtals Bloomberg-fréttaveitunnar við Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formann velferðarnefndar Alþingis, þar sem hún lét þau orð falla að afnema þyrfti ríkisábyrgð á skuldum sjóðsins, auka eigið fé hans og endursemja um skuldir hans.
„Íbúðalánasjóður er langstærsti útgefandi verðbréfa á Íslandi. Á undanförnum dögum hefur í tvígang þurft að stöðva viðskipti með þessi bréf vegna óvarlegra ummæla þeirra sem um málefni sjóðsins fjalla, nú síðast formanns velferðarnefndar, Sigríðar Ingibjargar. Það eitt og sér er grafalvarlegt mál,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á facebooksíðu sinni.
Bjarni segir að ríkisstjórnin geri ennfremur allt sem í hennar valdi stendur til þess að sópa vanda Íbúðalánasjóðs undir teppið. Þrátt fyrir augljósan eiginfjárvanda hafi ekki verið gert ráð fyrir nokkrum framlögum til sjóðsins í fjárlagafrumvarpinu vegna næsta árs.
„Ekkert réttlætir þær blekkingar. Séu ummæli Sigríðar Ingibjargar um þörf á samningum við kröfuhafa rétt er ljóst að ÍLS er í mjög alvarlegum vanda og augljóst að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnir nú eru eins og lítill plástur á svöðusár,“ segir hann ennfremur og vísar þar til þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar á fundi sínum í morgun að afla heimilda í fjárlögum næsta árs til að auka stofnfé sjóðsins um allt að 13 milljarða króna.
Bjarni spyr að endingu hvers vegna ekki sé upplýst um stöðu Íbúðalánasjóðs og hvern sé verið að reyna að blekkja. „Eða er bara verið að kaupa tíma fram yfir kosningar?“