Snjórinn verður sennilega til vors

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að sá mikli snjór sem komið hafi á Norðurlandi í nóvember hafi í kjölfar hláku í síðustu viku breyst í hjarn og ef ekki verði veruleg leysing í vetur sé líklegast að snjóinn taki ekki upp fyrr en í vor.

Búið er að snjóa óvenjulega mikið á Norðurlandi í nóvember, en fyrstu þrjár helgarnar í nóvember var stórhríð. Einar segir að snjódýpt frá Fljótum og austur fyrir Mývatn sé 50-80 cm. Í Vaglaskógi sé snjódýptin um 90 cm og 70 cm í Reykjahlíð við Mývatn. Snjólaust er hins vegar með ströndinni; á Tjörnesi og Sléttu.

„Snjórinn hefur sigið eftir að það gerði skammvina leysingu um miðja síðustu viku. Snjórinn er orðinn að hjarni og hann skefur ekki úr þessu. Ef ekki gerir verulega leysingu í vetur er þessi snjór kominn til að vera til vors,“ segir Einar.

Einar segir að það sé ekki einsdæmi að það snjói svona snemma. „Undanfarin ár hefur oft verið lítill snjór framan af vetri og jafnvel snjólaust fram yfir áramót. Þetta eru því talsverð viðbrigði.“

Einar segir að þegar snjói þetta mikið og frysti í kjölfar hláku þá sé auðvitað algerlega haglaust fyrir skepnur. Hross nái ekki að krafsa í gegnum þetta.

Einar segir að snjókoman fyrir norðan hafi reynt mikið á Vegagerðina. Mikil vinna hafi verið hjá snjómokstursmönnum fyrir norðan. Aðalleiðir fyrir norðan hafi verið lokaðir í þó nokkuð marga daga í nóvember vegna snjókomu og veðurs. Menn hafi ekki alltaf komist í að moka vegna blindu og veðurs.

Björn Ólafsson, forstöðumaður þjónustudeildar Vegagerðarinnar, sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að heildarfjárveiting til vetrarþjónustu á þessu ári hefði verið 1.580 milljónir og þar af fóru 1.413 milljónir til þjónustusvæðanna.  Ekki er búið að taka saman heildarkostnað við vetrarþjónustuna en Björn sagði ljóst að fjárveitingin væri löngu búin.

„Það er tímabil núna með rólegra veðri. Er á meðan er. Það er alla vega enginn snjómokstur í gangi, en það þarf auðvitað að hálkuverja, sérstaklega á Suðvesturlandi,“ segir Einar.

Hægt er að fylgjast nánar með veðurspá á mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert