„Það er enginn taugatitringur til staðar lengur. Menn hafa bara áttað sig á því að þetta er lýðræði og nú bíða menn bara eftir því að geta klárað þetta og farið að snúa sér að kosningabaráttunni,“ segir Eiríkur H. Hauksson, formaður Kjördæmissambands framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, en valið verður á framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu á tvöföldu kjördæmisþingi á laugardaginn.
Tveir sækjast eftir því að leiða framboðslistann, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Höskuldur Þórhallsson, þingmaður flokksins í kjördæminu, en hann skipaði annað sæti listans fyrir síðustu þingkosningar. Sigmundur bauð sig hins vegar fram í Reykjavík síðast en ákvað í haust að færa sig yfir í Norðausturkjördæmi og sækjast eftir því að leiða listann þar eftir að Birkir Jón Jónsson, sem skipaði fyrsta sætið síðast, ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs.
„Það var taugatitringur hérna og þá sérstaklega fyrir svona tveimur vikum en hann er í raun bara farinn. Nú eru menn alveg hættir að hugsa um það,“ segir Eiríkur. Fólk hafi fengið tíma til þess að melta málin sem sé bara hollt og gott og nú viti allir hvernig landið liggi. „Frambjóðendafundir hafa síðan gengið rosalega vel og þar hafa allir verið kurteisir í garð hver annars. Þetta hafa verið mjög góðir fundir að undanförnu í kjördæminu.“
Umræðan snýst um það hvað sá geri sem tapar
Eiríkur segir aðspurður að flestir telji nokkuð ljóst hvernig kosningin í fyrsta sætið eigi eftir að fara. Almennt hefur verið búist við að Sigmundur nái fyrsta sætinu og þá ekki síst þar sem ákveðið var að velja á framboðslistann með tvöföldu kjördæmisþingi en ekki í prófkjöri. „En engu að síður getur auðvitað allt gerst. Þetta er lýðræði og það veit enginn hvað fólk kann að gera í kjörklefanum.“
„Aðalumræðan snýst um það hvað sá gerir sem vinnur ekki. Umræðan snýst nær eingöngu um það í dag,“ segir Eiríkur. Hvorki Sigmundur né Höskuldur hafa gefið neitt upp um það hvaða afleiðingar það kunni að hafa nái þeir ekki fyrsta sætinu en Eiríkur segir það ekki óeðlilegt. „Það er eðlilegt að menn séu ekkert að gefa neitt upp um slíkt. Það gæti einfaldlega virkað sem tilslökun.“
Spurður um smölun í aðdraganda tvöfalda kjördæmaþingsins segir Eiríkur að hún hafi vissulega átt sér stað. „Það hefur orðið minniháttar fjölgun í fjórum stærstu félögunum í kjördæminu en það dreifist nokkuð jafnt á þessa tvo frambjóðendur þannig að það er enginn titringur heldur vegna þess,“ segir hann og bætir því við að erfiðara sé að smala á kjördæmaþingið en í prófkjöri enda þurfi fimm félagsmenn að standa að baki hverjum einum fulltrúa á þinginu.
Fimm karlar í framboði og sex konur
Samtals gefa 11 manns kost á sér á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi að meðtöldum Sigmundi og Höskuldi. Anna Kolbrún Árnadóttir, sérkennari, og Líneik Anna Sævarsdóttir, skólastjóri, sækjast báðar eftir 2. sæti á listanum. Huld Aðalbjarnardóttir, fræðslu- og menningarfulltrúi, óskar eftir 2.-3. sæti og Sigfús Karlsson, framkvæmdastjóri, stefnir á 2.-4. sæti.
Þá sækist Margrét Jónsdóttir, leikskólakennari, eftir 2.-5. sæti. Kristín Thorberg óskar eftir 2.-6. sæti og Þórunn Egilsdóttir verkefnastjóri stefnir á 4. sæti listans. Hjálmar Bogi Hafliðason, grunnskólakennari, stefnir síðan á 4.-5. sæti og Guðmundur Gíslason, stjórnmálafræðinemi, sækist eftir stuðningi í 6.-8. sæti.
Tvöfalda kjördæmaþingið fer fram í Mývatnssveit á laugardaginn 1. desember sem fyrr segir og fer það fram í íþróttahúsinu í Reykjahlíð. Gert er ráð fyrir að þingið hefjist klukkan 11 og því ljúki klukkan 16. Á þinginu verður kosið í sæti 1.-7. á framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu.