Hagfræðingur ASÍ: Mikil vonbrigði

Dagvara hefur hækkað undanfarið.
Dagvara hefur hækkað undanfarið. mbl.is

„Auðvitað eru þetta mikil vonbrigði. Verðbólgan er komin í 4,5%. Það þýðir að verið er að rýra kaupmátt heimilanna og þetta hefur líka umtalsverð áhrif á skuldir fólks,“ segir Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands, um hækkun á  vísitölu neysluverðs í nóvember frá fyrri mánuði.

„Þetta er í efri kantinum miðað við það sem hafði verið spáð,“ segir Ólafur Darri.

„En ef horft er til þess sem er undirliggjandi, þá skýrir veik staða krónunnar hækkanirnar liðið ár að mjög stórum hluta. Á meðan við náum engum tökum á genginu, þá er hætt við að staðan verði áfram slæm.“

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, sem birtar voru í morgun, hækkaði vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í nóvember 2012 um 0,32% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 383,5 stig og hækkaði um 0,37% frá október. Verð á bensíni og díselolíu lækkaði um 2,9% (vísitöluáhrif eru -0,17%), verð á dagvörum hækkaði um 0,8% (0,13% vísitöluáhrif) og verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 8,3% (0,13% vísitöluáhrif). 

Vísitala neysluverðs er nú  402,0 stig (maí 1988=100) og án húsnæðis er hún 383,5 stig.

Erfitt að nefna einstakar skýringar, fyrir utan krónu 

„Dagvaran er að hækka mest og svo er þessi mikla hækkun á flugfargjöldum. Það er erfitt að nefna einstakar skýringar á þessu, fyrir utan stöðu krónunnar, því það virðist vera nokkuð dreift hvað það er sem hækkar. Hvort um er að ræða innlend áhrif, eða óbein erlend áhrif; það er erfitt að segja,“ segir Ólafur Darri. Þetta gætu einnig verið markaðsaðstæður.

„Annars væri fróðlegt að heyra skýringar verslana. Eru smásalar að hækka verð sín eða eru það heildsalar?“

Á vefsíðu ASÍ segir að athyglivert sé að skoða hvaða liðir vístölunnar hafi hækkað mest síðastliðna 12 mánuði. Búvörur án grænmetis hafa hækkað um 6,4%, grænmeti um 11,8%, aðrar innlendar matar- og drykkjarvörur um 6,6%, innfluttar mat- og drykkjarvörur án grænmetis um 7,0%, bensín um 9,0% og opinber þjónusta um 9,3%.

Frétt mbl.is: Verðbólgan 4,5%

Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ.
Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ. Þorkell Þorkelsson
Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Flugfargjöld hafa hækkað um 8,3% undanfarinn …
Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Flugfargjöld hafa hækkað um 8,3% undanfarinn mánuð. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert