Kom að manni í rúmi sínu

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt rúmlega þrítugan karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Maðurinn, D réðst á annan, A, sem D fann í rúmi sínu og fyrrverandi sambýliskonu sinnar, á heimili D í Hafnarfirði.

Maðurinn sló A nokkrum hnefahöggum í andlit og höfuð, með þeim afleiðingum að A hlaut glóðarauga á vinstra auga, sár á nefi, tannarbrot, brot á augntóftargólfi, nefbeinabrot og heilahristing.

D játaði sök en kvað sér til málsbóta að hafa komið á sameiginlegt heimili sitt og konu sinnar að nóttu til og þá hafi A verið í rúmi hans. Hafi D í ákafri geðshræringu misst vald á skapi sínu og veist að A.

Sagði jafnframt að A hafi ekki mátt dyljast að D byggi á heimilinu og af þeim sökum taldi D bótakröfu A óviðeigandi.

Fyrrverandi sambýliskona mannsins, K, gaf skýrslu hjá lögreglu þar sem hún sagði D hafa átt föt og fleira á heimilinu en D hafi engu að síður ekkert erindi átt þangað. Þau hafi slitið samvistir í ágúst 2011 en árásin var gerð í september.

Lögð var fram yfirlýsing frá sambýliskonunni fyrir dóminum þar sem K segist hafa mátt gera sér grein fyrir því að D þyrfti að nálgast þá hluti sína og koma inn á heimilið. Þá kemur fram í dómnum að D og K hófu sambúð aftur stuttu eftir árásina.

Með vísan til þessa þótti refsing hæfileg tveggja mánaða fangelsi, bundin skilorði.

Þá var D dæmdur til að greiða A 375 þúsund krónur í skaðabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka