Neytendastofa og tollayfirvöld tóku upp og skoðuðu innihald allra sendinga sem komu til landsins sem innihéldu kveikjara á um tveggja mánaða skeiði. Leiddi sú skoðun ekki í ljós neina ágalla. Þá voru gerðar kannanir á hvort seldir væru kveikjarar með óvenjulegt útlit og var ein tegund tekin af markaði. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.
Um var að ræða átaksverkefni PROSAFE-samtakanna vegna kveikjara en PROSAFE er samstarfsnet evrópskra stjórnvalda á sviði vöruöryggis. Átakið hefur staðið yfir í tæp sex ár. Markmiðið var að eingöngu öruggir kveikjarar með barnalæsingum væru markaðssettir og komu þátttakendur verkefnisins frá 17 aðildarríkjum ESB en auk þess tóku 12 ríki óbeinan þátt.
Skoðaðir voru kveikjarar hjá um átta þúsund smásölum, heildsölum, innflytjendum og framleiðendum. Auk þess voru gerðar 850 skoðanir hjá tollyfirvöldum á kveikjurum frá ríkjum utan ESB. Þessar skoðanir leiddu til ýtarlegri könnunar á yfir 5.000 kveikjurum.
Helstu niðurstöður voru að engar athugasemdir voru gerðar við 3.721 kveikjara eða 73% kannaðra kveikjara. Af þeim kveikjurum sem gerðar voru athugasemdir við reyndust 295 þeirra ekki uppfylla kröfur ISO 9994-staðalsins, 101 þeirra reyndist ekki standast kröfur um barnalæsingar, 480 stóðust ekki aðrar kröfur en að lokum voru 516 kveikjarar sem ekki stóðust ótilgreindar kröfur.
Vegna verkefnisins hefur Neytendastofa sótt fundi erlendis með öðrum þátttakendum þar sem m.a. voru kynntar niðurstöður kannana hérlendis. Á Íslandi voru aðgerðir vegna verkefnisins í minna lagi en hjá öðrum þátttakendum en það stafar af smæð markaðarins. Þótti verkefnið hér á landi þó sýna að staðan á öryggi kveikjara á Íslandi sé góð.