„Okkar vilji eða vilji hans virðist ekki skipta neinu máli,“ segir María Björg Benediktsdóttir, móðir ellefu ára drengs sem fær ekki að stunda nám í Klettaskóla, sem er sérskóli á grunnskólastigi, þrátt fyrir að foreldrar hans telji það honum fyrir bestu.
Talsverð umræða hefur átt sér stað um stefnuna skóli án aðgreiningar. Foreldrar Inga telja að grunnskólinn henti ekki öllum börnum og því eigi að leyfa Inga að sækja nám í Klettaskóla.
María Björg og Ágúst Kristmanns, faðir hans, sóttu um námsvist fyrir Inga Kristmanns í Klettaskóla fyrr á þessu ári, en umsókninni var hafnað á þeirri forsendu að hann væri með væga þroskahömlun án viðbótarfötlunar og uppfyllti því ekki inntökuskilyrði. Ákvörðunin var kærð til menntamálaráðuneytisins sem staðfesti hana.
„Mér finnst þessi niðurstaða ráðuneytisins út í hött. Mér finnst að í úrskurðinum sé ekki svarað efnislega okkar rökum í málinu,“ segir María um úrskurð menntamálaráðuneytisins.
Í úrskurðinum segir að María og Ágúst hafi ekki farið rétta leið þegar þau sóttu um fyrir Inga í Klettaskóla. Þau hefðu ekki átt að sækja um beint til Klettaskóla heldur hefðu þau átt að fara með umsóknina til Kópavogsbæjar sem í kjölfarið hefði átt að leita eftir samningi við Reykjavíkurborg um skólagöngu hans.
María segir að sérkennslustjóri Kópavogsbæjar hafi sagt að hann hafi aldrei heyrt um að fara ætti þessa leið. Venjan sé sú að foreldrar snúi sér beint til skólans með umsóknir sínar. Síðan sendi Klettaskóli umsóknina til Kópavogsbæjar til að fá þann fjárhagsstuðning sem fylgir börnunum.
Ingi var greindur með hreyfiþroskaröskun árið 2007. Um er ræða afar sjaldgæfan sjúkdóm. María segir að hreyfigeta hans hafi minnkað frá því hann var greindur fyrst. „Hann fylgir ekki eftir hinum börnunum í bekknum. Hann er langt á eftir þeim félagslega og í hreyfigetu. Hann fær alltaf að vera með, en hann finnur vanmátt sinn og dregur sig því oft út úr leik og finnur sér eitthvað annað að gera,“ segir María.
„Það gekk vel hjá honum í skólanum í 1.-4. bekk. Strax og hann fór í 5. bekk þá sá maður muninn. Hann gerir ekkert af þessu sem hinir krakkarnir gera í dag.“
Í einni umsögn sem lögð var fram í málinu segir m.a. að Ingi eigi ekki samleið með börnum í Klettaskóla. María segir þetta mat fráleitt því að sá sem gaf þessa umsögn hafi ekki einu sinni haft fyrir því að hitta Inga. „Ingi hefur farið í sumarbúðir með krökkum úr Klettaskóla síðustu fimm sumur. Hann á vini í þeim skóla.“
María segir að hann hafi fengið greiningu árið 2007 og við afgreiðslu umsóknar um skólavist í Klettaskóla hafi verið miðað við hana. Síðan hafi hreyfigeta hans minnkað mikið. Það þurfi því að meta hann að nýju, en hann er á biðlista hjá Greiningarstöð.
Að nokkru leyti virðist þetta mál snúast um skilgreiningar og hugtök. Ef Ingi væri með hreyfihömlun hefði hann án efa komist inn í skólann, en hann er hins vegar skilgreindur með hreyfiþroskaröskun. „Þetta hamlar honum mikið. Hann þarf mikla aðstoð við að klæða sig, baða sig o.s.frv. Hann getur ekki klifrað eða gengið langar vegalengdir. Ég myndi því kalla þetta hömlun.“
María furðar sig af afstöðu kerfisins í þessu máli. „Það er ekkert litið á hag barnsins. Okkar vilji eða vilji hans virðist ekki skipta neinu máli. Þetta er bara einhver pólitík eða leikur að orðum.“
María segist aldrei hafa fengið þær upplýsingar að ekki væri pláss fyrir fleiri börn í Klettaskóla. Skólastjóri skólans hafi sagt í blaðaviðtali í vor að það hefði aðeins tveimur nemendum verið neitað um skólavist frá upphafi.
María og Ágúst hafa ekki gefist upp þrátt fyrir úrskurð menntamálaráðuneytisins. Þau hafa lagt fram formlega kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna afgreiðslu málsins. Þau ætla líka að sækja aftur um skólavist hjá Klettaskóla í gegnum Kópavogsbæ. María er með nýtt mat frá lækni um sjúkdóminn. Hún segist ekki vita hvort tekið verði mark á því þó að skólinn hans og Kópavogsbær hafi stutt þá tillögu að hann færi í Klettaskóla.
„Það er ekki sérstök óskhyggja foreldra að setja barnið sitt í sérskóla. Maður gerir það ekki að gamni sínu. Það er ástæða fyrir því. Við erum alveg sannfærð um að við séum að gera barninu gott með því að fara þessa leið. Við þekkjum hann best allra,“ segir María.