Nokkuð hefur borið á eldsneytisþjófnaði í Reykjanesbæ á undanförnum vikum. Fáir eru þó óprúttnari en þeir sem dældu eldsneyti af sjúkrabíl þar sem hann stóð við slökkvistöðina. Sjúkrabíllinn var svo gott sem eldsneytislaus þegar mennirnir höfðu lokið sér af og hefði því lítið gagnast í neyð.
Víkurfréttir greina frá málinu og ræða við Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja. „Þessir þjófnaðir virðast vera farnir að færast á annað stig, þegar svo er komið að eldsneyti er stolið af neyðarbílum slökkviliðsins. Ég veit ekki hvort að þeir sem leggjast svo lágt geri sér grein fyrir því að útkallið gæti eins verið til þeirra eða þeirra ættingja sem og annarra bæjarbúa.“
Þá hvetur Jón þá sem verða varir við óeðlilegt athæfi að hika ekki og hafa samband við lögreglu þannig að hægt sé að stemma stigu við eldsneytisþjófnaði í sveitarfélaginu.