Á næstu dögum verður lagt fyrir Alþingi frumvarp um veðmálastarfsemi á Íslandi. Að sögn Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra er hlutverk þess að stemma stigu við fjárhættuspilun á netinu.
Stefnt er að því að setja á fót sérstaka Happdrættisstofu sem ætlað er að hafa umsjón með veðlánastarfsemi. Rekstur hennar verður byggður á gjaldi sem tekið verður af veðmála- og happdrættisfyrirtækjum.
„Greiðslukortafyrirtækjum verður gert óheimilt að annast milligöngu fyrir erlendar veðmálasíður. En jafnframt verður opnað fyrir heimild til spilunar í gegnum netið sem innlend happdrætti eða veðmálafyrirtæki geta boðið upp á,“ segir Ögmundur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.