Neftóbaksgjald verður tvöfaldað

ÁTVR hefur lengi framleitt neftóbak.
ÁTVR hefur lengi framleitt neftóbak.

Tóbaksgjald verður hækkað um 15% umfram verðlag, eða um það bil um 20%, á árinu 2013, samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svo kölluðum bandormi. Einnig er lögð til tvöföldun á gjaldi af neftóbaki.

Í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár er gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum á tekjuhlið sem samtals eiga að skila 8,4 milljörðum króna. Hækkun tóbaksgjaldsins er þar á meðal.

Í fylgiskjali með frumvarpinu segir að núverandi gjald á neftóbaki þyki óeðlilega lágt miðað við annað tóbak og það hafi leitt af sér aukna neyslu hérlendis. Gert er ráð fyrir því að hækkun á gjaldi af tóbaki og neftóbaki skili ríkissjóði um 1 milljarði króna í auknum tekjum.

Meðal annarra aðgerða sem skila eiga ríkinu auknum tekjum er umdeild hækkun á virðisaukaskatti á gistiþjónustu, úr 7% í 14%. Einnig er lagt til að dregið verði úr þeim afslætti sem bílaleigur hafa notið af almennu vörugjaldi á ökutæki. Gert er ráð fyrir að sú breyting skili ríkissjóði 0,5 milljörðum króna.

Stjórnvöld hafa einnig uppi áform um að bæta skattskil, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja, sem kostur er. Þetta verður gert með hertum aðgerðum skattayfirvalda og innheimtumanna ríkissjóðs á komandi mánuðum og árum. Telur ríkisstjórnin að þessar aðgerðir skili ríkissjóði 500-600 milljónum króna í viðbótartekjum á næsta ári.

Þá er lagt til að almennt tryggingagjald hækki um 0,3% og almennur fjársýsluskattur hækki úr 5,45% í 6,75%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert