Pólitíkin góður skóli fyrir hamfaramál

Herdís Sigurjónsdóttir
Herdís Sigurjónsdóttir mbl.is

Her­dís Sig­ur­jóns­dótt­ir bæj­ar­full­trúi hef­ur tekið þá ákvörðun að hætta störf­um nú þegar eitt og hálft ár er eft­ir af kjör­tíma­bil­inu. Her­dís hef­ur setið í bæj­ar­stjórn fyr­ir Sjálf­stæðsflokk­inn í rúm 14 ár. Hún mun óska lausn­ar fljót­lega og hætta um ára­mót­in. Þetta kem­ur fram í Mos­fell­ingi, bæj­ar­blaði Mos­fell­inga í dag. 

Her­dís seg­ir ákvörðun­ina hafa verið tekna nokkuð skyndi­lega en hún standi á kross­göt­um.   „Mér bauðst að starfa hjá VSÓ Ráðgjöf, sem er frá­bær vinnustaður. Það eru spenn­andi verk­efni á döf­inni og eins er mér veitt svig­rúm til að sinna þeim rann­sókn­ar­verk­efn­um sem ég hef verið að starfa að hér heima og er­lend­is og að ljúka við doktors­nám mitt sem fjall­ar um ham­fara­mál. Þangað stefn­ir hug­ur­inn og því valdi ég þá leið,“ seg­ir Her­dís í viðtali við Mos­fell­ing.

Póli­tík­in góður skóli fyr­ir ham­fara­mál­in

Hún hef­ur um langt skeið unnið að ham­fara­mál­um hjá Rauða kross­in­um og er nú í doktors­námi með áherslu á ham­fara­stjórn­un. Í viðtal­inu seg­ir Her­dís þó að seta henn­ar í bæj­ar­stjórn sé besti skóli sem hún hafi verið í og trú­lega besti skóli sem hægt sé að hugsa sér fyr­ir ham­fara­mál­in. 

„Að þekkja innviði og skipu­lag sam­fé­laga frá öll­um hliðum, hlut­verk kjör­inna full­trúa og emb­ætt­is­manna í þjón­ustu og sam­skipt­um við borg­ar­ana. Sam­skipti rík­is og sveit­ar­fé­laga, hlut­verk fé­laga­sam­taka og sam­fé­lags­lega mik­il­vægra fyr­ir­tækja. Allt þetta er lyk­ill­inn að vel­gengni og sam­hæf­ingu þegar kem­ur að stoð við fólk eft­ir ham­far­ir eða önn­ur sam­fé­lags­leg áföll.“

Kol­brún Þor­steins­dótt­ir vara­bæj­ar­full­trúi tek­ur sæti Her­dís­ar í bæj­ar­stjórn um ára­mót­in.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert