Ljóst er að eini tilgangur frumvarps innanríkisráðherra um skilyrði lögreglu til beitingar úrræða við rannsókn er að þrengja heimildir hennar. Þetta segir Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins í umsögn um frumvarpið.
Þau úrræði sem um ræðir eru símahlustun, upptaka á hljóðum og merkjum, taka ljósmynda og kvikmynda og notkun eftirfararbúnaðar. „Þessar aðgerðir skerða friðhelgi einkalífs á mjög tilfinnanlegan hátt þar sem þær eiga það allar sameiginlegt að til þeirra verður aðeins gripið að þeir sem þær beinast að viti ekki af þeim. Af þeim sökum er því ástæða til að setja þeim ströng skilyrði,“ segir í frumvarpi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra.
Áður hefur mbl.is fjallað um umsögn Ákærendafélags Íslands sem telur að frumvarpið sé fyrst og fremst pólitískt og endurspegli að nokkru sjónarmið þeirra sem talað hafa fyrir því að þrengja rannsóknarheimildir lögreglu með friðhelgi einkalífs að leiðarljósi.
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins segir að þrengingin felist í því að bæta við skilyrði fyrir beitingu umræddra úrræða að til staðar þurfi að vera ríkir almanna- eða einkahagsmunir þegar til rannsóknar eru brot sem varða að minnsta kosti átta ára fangelsi, en í gildandi lögum á það skilyrði einungis við þegar verið er að rannsaka brot þar sem refsiramminn er undir því viðmiði.
„Rannsóknarúrræðum skv. umræddum ákvæðum laga um meðferð sakamála er nánast eingöngu beitt við rannsóknir mála þar sem refsiramminn er að minnsta kosti átta ára fangelsi. Þau tilvik þar sem þeim hefur verið beitt vegna rannsóknar annarra brota og þá á grunni þess skilyrðis að til staðar séu ríkir almanna- og einkahagsmunir eru afar fá,“ segir Stefán og að það byggist á því mati lögreglu, ákæruvalds og dómstóla að túlka beri slík matskennd skilyrði þröngt.
Sökum þess sé með öllu óljóst hvaða áhrif lagabreytingin kann að hafa á rannsóknir mála hjá lögreglu. „Mögulegt er að þröng túlkun dómstóla á slíku ákvæði muni hafa í för með sér að úrræði lögreglu til að rannsaka slík mál verði skert til mikilla muna frá því sem nú er, en um það er erfitt að fullyrða.“
Stefán segir að með hliðsjón af þeirri óvissu sem skapast með samþykkt frumvarpsins sé ekki unnt að fallast á það sem fram komi í greinargerð að verið sé að setja skýrari skilyrði fyrir beitingu umræddra rannsóknarúrræða.