Mikilvægt er að bæta holdafari við þau atriði sem talin eru upp undir ákvæði um jafnræði í frumvarp um ný stjórnskipunarlög, ef stjórnarskráin á að þjóna tilgangi sínum um vernd mannréttinda íslenskra samfélagsþegna. Þetta segja Samtök um líkamsvirðingu í athugasemd við frumvarpið.
Í athugasemd sem send var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kemur fram að rannsóknir sýni að fordómar vegna holdafars séu einhverjir algengustu fordómar í vestrænum samfélögum. Þá staðfesti íslenskar rannsóknir að mismunun á grundvelli holdafars eigi sér stað í atvinnulífi hér á landi og dæmi séu um að fólki hafi verið meinað að ættleiða barn á grundvelli holdafarsins eins.
Þá segir í athugasemdinni, sem Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og formaður samtaka um líkamsvirðingu, skrifar undir, að rannsóknir bendi til að þessir fordómar fari vaxandi og þeir ógni líðan, atvinnuöryggi og lífsgæðum stórs hluta þjóðarinnar þar sem um tuttugu prósent þjóðarinnar teljast of feit. „Því er vert að árétta að það er ekki fámennur minnihlutahópur, sem stendur frammi fyrir þessu óréttlæti, heldur allt að fimmtungur þjóðarinnar.“
Í niðurlagi athugasemdarinnar er á það bent að Íslendingar hafi áður rutt brautir sem snerta mannréttindi, t.d. hvað varðar jafnrétti kynjanna og réttindi samkynhneigðra. „Það er ekki nema rökrétt að þeir ryðji brautina að þessu leyti líka. Verði þessu atriði bætt við stjórnarskrána munum við verða fyrst allra þjóða til að viðurkenna mismunun á grundvelli holdafars og binda það í stjórnarskrá okkar að slík mismunun sé ekki samþykkt.“