„Ég dró framboð mitt til baka. Ég sendi uppstillinganefnd tilkynningu um það í gær og formanni hennar, Sigurði Hannessyni, og greindi frá ástæðum þess,“ segir Guðlaugur Gylfi Sverrisson, verkefnisstjóri og fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.
Guðlaugur hafði sóst eftir forystusæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík en er ekki á tillögu kjörnefndar að framboðslistum í Reykjavík sem lagðir verða fram á aukakjördæmisþingi á morgun þar sem endanlegir listar verða samþykktir.
„Það var búið að bjóða mér sæti á listanum sem ég hafnaði. Þannig að ég dró framboð mitt til baka,“ segir Guðlaugur en vildi aðspurður ekki gefa upp hvaða sæti honum hefði verið boðið. Hann segist hafa gefið formanni kjörnefndar skýringu á ákvörðun sinni og sent afrit til annarra fulltrúa í nefndinni.
„Þannig að málið er hjá honum. Ég vil ekkert tjá mig meira um það. Hann er bara með þessa yfirlýsingu frá mér og það er hans hvað hann vill gera við hana,“ segir Guðlaugur.
Jónína Benediktsdóttir athafnakona sóttist einnig eftir forystusæti á framboðslistum Framsóknarflokksins í Reykjavík en er heldur ekki í tillögu kjörnefndar eins og mbl.is fjallaði um í morgun.