Í farþegatalningu Strætó bs. er skoðuð sérstaklega notkun vagna við helstu framhalds- og háskóla á höfuðborgarsvæðinu. Mjög misjafnt er hvernig biðstöðvar við menntastofnanir eru notaðar. Erfitt getur þó verið að bera saman biðstöðvar þar sem sumar þeirra eru í grennd við stór atvinnusvæði. Þá liggja biðstöðvar saman í einhverjum tilfellum t.d. að einhverju leyti við Verslunarskólann og Menntaskólann í Hamrahlíð.
Í skýrslu Strætó bs. segir að athyglisvert sé hversu fáir nýti strætó við Háskólann í Reykjavík. Einnig er tekið fram að miðað við fyrri talningar virðist sem flutningur HR úr Ofanleiti hafi lítil áhrif haft á nýtingu strætisvagna á Kringlusvæðinu og hefur hún aukist á milli ára.
Innstig í vagna strætó við HR dag hvern samkvæmt talningu voru 158 en útstig 175 miðað við síðustu talningu. Þó hefur farþegum fjölgað lítillega frá 2011 þegar innstigin voru 140 og útstigin 155. Þess má geta að nemendur í Háskólanum í Reykjavík eru um þrjú þúsund, auk kennara og annars starfsfólks. Til samanburðar má nefna að við biðstöð við Flensborgarskólann í Hafnarfirði, töluvert fámennari stofnun, voru innstig 135 og útstig 144 miðað við síðustu tölur. Í Borgarholtsskóla voru innstigin 140 en útstig 105.
Nú ekur einn vagn á hálftíma fresti að HR en fyrir ári óku tveir vagnar hvor á sinni leiðinni þangað og komu þá við á kortersfresti. „Niðurstaðan var sú að það var mjög lítil notkun á leiðunum. Á hverjum degi voru um hundrað farþegar við þessa stofnun, sem er tvö til þrjú þúsund manna vinnustaður. Reykjavíkurborg sagðist einfaldlega ekki ætla að setja svo mikla peninga í almenningssamgöngur ef fólk vildi ekki nota þær, því var önnur leiðin skorin af og enn virðist notkun vera lítil. Við höfum svo sem ekkert rýnt nákvæmlega í af hverju,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.
Hann nefnir einnig að kannski dugi að sjá bílastæðin við skólann, þau séu um þúsund talsins, oft smekkfull. „Það virðist bara vera óskaplega takmarkaður áhugi fyrir því að nota þessa samgönguleið,“ segir Reynir og bætir við að hann kannist ekki við kvartanir frá skólanum sjálfum eða stúdentafélagi hans.
Reynir nefnir einnig að Háskóli Íslands sé svæði sem sé mjög vel þjónustað, en hins vegar virðist sem nemendur sjái sér ekki mikinn hag í að nota þjónustuna. „Við höfum ekki lagst í miklar rannsóknir meðal háskólanema varðandi almenningssamgöngur, en þetta virðist á skjön við þau sjónarmið sem stúdentaráð hefur sett fram. Fljótt á litið virðist ekki vera samband á milli væntrar og raunverulegrar notkunar þessa hóps,“ segir Reynir.
Í þessu sambandi er rétt að minna á tilraunaverkefni stjórnvalda frá 2008 þegar nemum var fært strætókort sér að kostnaðarlausu. Reynir segir það tilraunaverkefni hafa misheppnast algjörlega. „Ég veit ekki hversu miklu meira er hægt að gera,“ segir Reynir.
Farþegum strætó í heild hefur hins vegar fjölgað um 108 þúsund eða 12% á milli ára. Farþegum á hverjum virkum degi hefur fjölgað um 4.264 eða í tæpa fjörutíu þúsund á dag.