Gildistími vegabréfa aftur 10 ár

Innanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér að gildistími almennra vegabréfa fullorðinna verði færður til eldra horfs, fari úr fimm árum óháð aldri í tíu ár fyrir almennt vegabréf en fimm ár fyrir 18 ára og yngri. Rökin eru þau að komin er rúmlega átta ára reynsla af notkun örflögu í vegabréfum og hefur hún reynst vel.

Breytingin sem gerð var 2006 var vegna þess að framleiðendur örflaga á þessum tíma treystu sér ekki til þess að ábyrgjast að örflögurnar entust í tíu ár vegna þess að mikill hluti þessarar tækni væri of nýr til að reynsla væri komin á langvarandi notkun vegabréfa af þessu tagi. Var því fimm ára gildistími valinn eins og reyndar mörg önnur ríki gerðu.

Tilefni frumvarpsins er, sem áður segir, að færa gildistíma almennra vegabréfa, þeirra sem eldri eru en 18 ára, í tíu ár í stað fimm ára vegna þess að örflögur sem geyma tiltekin lífkenni manna í vegabréfum hafa reynst endingarbetri en talið var að yrði fyrir nokkrum árum.

Lífkenni í vegabréfi geta t.d. verið andlitsmynd viðkomandi, augnmynd, fingraför og undirskrift en einnig upptaka af rödd viðkomandi eða önnur þau líkamlegu einkenni sem unnt er að mæla með ákveðinni tækni þannig að þau greini menn sundur. Lífkenni eru oftast myndir sem unnt er að nota til auðkenningar viðkomandi.

Rafræn lífkenni, svo sem rafrænar andlitsmyndir, má greina með tölvubúnaði og þannig má með vélrænum hætti aðgreina menn. Þar til gerður búnaður ber þá saman þau lífkenni sem skráð eru á örflögu í vegabréfinu og þau lífkenni sem tekin eru á staðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert