Guðbjartur fram gegn Árna Páli

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðbjartur Hannesson hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar, gegn Árna Páli Árnasyni sem tilkynnti framboð sitt til formanns í október. Guðbjartur hlaut 76% atkvæða í flokksvali Samfylkingarinnar í norðvesturkjördæmi um helgina. Hann segir að skorað hafi verið á hann í langan tíma af fjölmörgum aðilum.

„Ég sagði að ég yrði fyrst að sjá niðurstöðurnar úr prófkjörinu í norðvestri, áður en ég gæti tekið endanlega ákvörðun. En það er auðvitað búið að kalla eftir því að fá fram framboð sem myndi leggja áherslu á samstöðu, reyna að skapa traust og leita lausna þar sem við reynum að ná sem allra breiðastri sátt, innan Samfylkingarinnar og úti í samfélaginu,“ segir Guðbjartur.

Telur þú þig vera fulltrúa þessa hjá flokknum?

„Já þess vegna fer ég fram. Fólk sér það sem möguleika í mér, það er verið að kalla eftir því þannig að ég verð við þeirri áskorun og er tilbúinn að berjast fyrir þessu og leggja allt sem ég get af mörkum til að vinna að þessum markmiðum.“

Þið eruð nú orðnir tveir í framboði, heldurðu að það verði fleiri um hituna?

„Það er auðvitað ekki mitt að meta það. En það er breiður hópur sem hefur skorað á mig að fara fram, og ég veit ekki um neina aðra.“

Áttu von á hörðum slag?

„Ég vona að hann verði fyrst og fremst málefnalegur og sanngjarn. Þannig vil ég vinna. Við leggjum fram bæði okkar persónur og málefni og síðan er það flokksfélaga okkar að velja á þeim grunni.“

Guðbjartur sendi flokkssystkinum sínum tölvupóst nú síðdegis þar sem hann tilkynnti þeim formlega ákvörðun sína. Oddný G. Harðardóttir hefur einnig verið orðuð við formannsframboðið. Hún vann yfirburðasigur á Björgvini G. Sigurðssyni í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fyrir tveimur vikum en hún hefur sjálf sagt að hún íhugi ekki framboð.

Nýr formaður verður kosinn á landsfundi Samfylkingarinnar í febrúar.

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert