Hvetja sjálfstæðismenn til að standa þétt saman

Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.

Samtök eldri sjálfstæðismanna, SES, hvetja sjálfstæðismenn til að standa þétt saman í þeirri kosningabaráttu sem framundan er. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi þeirra í vikunni.

„Við sjálfstæðismenn viljum tryggja efnahagslegt sjálfstæði einstaklingsins og halda skattlagningu í hófi. Til þess að ná þeim markmiðum er nauðsynlegt að byggja upp traust og ryðja á brott opinberum hindrunum sem standa í vegi fyrir því að unnt sé að nýta auðlindir landsins til nýrrar atvinnustarfsemi og auka þannig afrakstur þjóðarbúsins en það er forsenda fyrir  velmegun öllum til handa.   

Við sjálfstæðismenn höfnum úrræðaleysi vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar og bendum á afleiðingarnar sem hvarvetna blasa við. Ríkissjóður er rekinn með vaxandi halla. Sjúkrabúnaði er ekki haldið við og lækningatæki ekki endurnýjuð, löggæsla er í svelti og vinnumarkaðurinn í uppnámi þar sem ríkistjórnin stendur ekki við gefin fyrirheit. Þrengt er að gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum eins og sjávarútvegi, orkufrekum iðnaði og ferðaþjónustu. Nýjar fjárfestingar eru hverfandi. Atvinnuleysi er fylgifiskur hafta og stöðnunar og í slíku umhverfi verður velferðarkerfið ekki varið eins og nú er komið á daginn.

Það kemur í hlut Sjálfstæðisflokksins að byggja atvinnulífið upp að nýju og treysta grunnstoðir velferðarkerfisins,“ segir í tilkynningu frá SES.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert