Lögreglan biðst afsökunar á facebook

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjarlægði síðdegis í dag frásögn sem birt var um útkall á höfuðborgarsvæðinu nýverið. Færslan fékk misjöfn viðbrögð og var lögregla m.a. gagnrýnd fyrir að fjalla af léttúð um konu sem virðist hafa orðið fyrir kynferðisáreiti og holdafar hennar.

Í færslu lögreglunnar var sagt frá því þegar lögreglan var kölluð að heimahúsi þar sem karlmaður á miðjum aldri hafði verið læstur úti af gestkomandi konu, sem varnaði honum inngöngu. Lögregla segir að allt hafi þetta verið dálítið málum blandið.

Konan útskýrði mál sitt svo að hún hefði hitt manninn í miðborginni skömmu áður og þegið heimboð hans. Eftir að í íbúðina kom hafi framkoma mannsins hins vegar verið „allt annað en herramannsleg“. Fannst konunni maðurinn bæði of nærgöngull og fjölþreifinn að því er fram kom í færslu lögreglu. Samskipti þeirra enduðu þannig að hún lokaði hann úti og vildi ekki hleypa honum að sér.

Þegar lögreglumenn bar að neitaði konan fyrst að hleypa þeim inn og sagðist lögreglu svo frá að reynt hefði verið að tala um fyrir henni en hún hafi verið „hin þverasta“. Kom fram að ekki hefði veitt af þremur lögreglumönnum til að ýta upp hurðinni því konan hafi verið „þrekvaxin í meira lagi“.

Lögreglan íhugar vinnubrögðin 

Viðbrögðin við færslunni voru misjöfn og hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nú fjarlægt hana og beðist afsökunar. „Lögreglan tekur að sjálfsögðu alvarlega þær athugasemdir sem settar voru við frásögnina. Jafnframt íhugar lögreglan vinnubrögð sín hér á fésbókinni og mun leitast við að gera betur, enda vill hún síst af öllu misbjóða fólki,“ segir í færslu á facebook-síðu lögreglu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu reið á vaðið með notkun samfélagsmiðla og hefur þótt takast mjög vel til, enda hafa önnur lögregluembætti fylgt í kjölfarið. Eftir því sem mbl.is kemst næst er þetta í fyrsta sinn sem lögreglan fjarlægir færslu vegna neikvæðra viðbragða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert