Ríkisstjórnin hefur ekkert lært af framlagningu fyrri frumvarpa um breytingar á stjórn fiskveiða á kjörtímabilinu. Þetta sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi í dag.
Gagnrýndi hún harðlega vinnubrögð stjórnarinnar vegna nýs frumvarps sem gert er ráð fyrir að verði rætt við fyrstu umræðu í þinginu í dag.
Vakti hún athygli á því að í aðdraganda frumvarpsins hefði eins og fyrri daginn ekkert samráð verið haft við stjórnarandstöðuna, hagsmunaaðila eða sérfræðinga. Þá væri í meginatriðum um að ræða óbreytt frumvarp frá því sem lagt hafi verið fram á síðasta þingi og náði ekki fram að ganga.
Sagði Ragnheiður ennfremur að óskandi væri að um einsdæmi væri að ræða en vinnubrögðin hefðu verið þau sömu í til að mynda vinnu í kringum svokallaða rammaáætlun og frumvarp að nýrri stjórnarskrá.