Samfylking fundar um kvótafrumvarp

Úr þingflokksherbergi Samfylkingarinnar.
Úr þingflokksherbergi Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Þingflokksfundur hófst hjá Samfylkingunni nú klukkan 18 þar sem kvótafrumvarpið verður rætt. Samfylkingarþingmenn funduðu einnig í hádeginu í dag en þeim fundi var slitið án þess að frumvarpið væri afgreitt.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru að brenna inni á tíma því eigi frumvörp að komast til afgreiðslu Alþingis fyrir jól verður að leggja þau fram í síðasta lagi fyrir miðnætti í dag, nema þingið samþykki afbrigði frá þingsköpum. Erfiðlega hefur gengið að ná í þingmenn Samfylkingarinnar í dag en Guðbjartur Hannesson sagði í samtali við mbl.is síðdegis að flestir væru niðri á Alþingi tilbúnir að stökkva til þegar fundur yrði boðaður.

Kvótafrumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn og kynnt þingflokkum Vinstri grænna og Samfylkingar í síðustu viku. Þingflokkarnir funduðu fram á kvöld í gær og hefur þingflokkur VG afgreitt frumvarpið og samþykkt að það verði lagt fram.

Meiri óánægju hefur gætt innan þingflokks Samfylkingarinnar. Hefur Ólína Þorvarðardóttir m.a. sagt að hún vilji sjá breytingar á frumvarpinu ef hún eigi að styðja það í þinginu. Ólína sat ekki fundinn í hádeginu í dag en sagðist fyrir fundinn nú kl. 18 ekki þora að segja til um hvort líklegt sé að samkomulag náist í þingflokknum um málið í kvöld.

„Ég vil ekkert segja til um það að svo stöddu, það skýrist á þessum fundi. En það er auðvitað alltaf hægt að leggja þetta frumvarp fram með afbrigðum. Það er ekki eins og það sé ekki hægt að leggja það fram þótt það væri auðvitað best að það færi inn á réttum tíma. En það verður að koma í ljós út frá því hvort það tekst að lenda þessu.“

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. bml.is/Ólína Þorvarðardóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert