Fær viðurkenningu fyrir framúrskarandi framlag

Ásgeir Haraldsson prófessor í barnalækningum og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins
Ásgeir Haraldsson prófessor í barnalækningum og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins mbl.is

Ásgeir Haraldsson yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins fær Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna en þau eru veitt árlega fyrir framúrskarandi framlag í þágu barna.

Þetta er í 8. sinn sem Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna eru veitt en sjóðurinn var stofnaður árið 2000 með stofnfjármagni frá Íslenskri erfðagreiningu.

Markmið sjóðsins er að hlúa að velferð og hagsmunamálum barna á Íslandi m.a. með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar-, menntamála og samtaka á Íslandi sem hafa velferð og lækningar barna að megintilgangi.

Frá upphafi hefur hátt í 700 milljónum verið úthlutað úr sjóðnum.

Velta sjóðsins í ár nemur um 35 milljónum króna en auk beinna styrkveitinga rekur Velferðarsjóður barna Mentorverkefnið Vináttu þar sem 76 börn á landsvísu verða þess aðnjótandi að fá að kynnast háskóla- eða framhaldsskólanema og verja með þeim þremur klukkustundum á viku allt skólaárið, samkvæmt fréttatilkynningu.

 Á árinu greiddi sjóðurinn fyrir sumarnámskeið um 110 barna í samstarfi við KFUM og K og Ævintýraland. Sjóðurinn hefur undanfarin ár veitt umtalsverða fjárhæð til sumargjafa og gat sjóðurinn komið um 275 börnum til aðstoðar á þessu sumri á landsvísu. Í skólabyrjun var tveim milljónum ráðstafað til styrktar fjölskyldum í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar.

Þessi lokaúthlutun ársins nemur samtals kr. 8.000.000. Af þeirri upphæð ber að nefna Barnamenningarverðlaunin sem eru veitt fyrir framúrskarandi framlag í þágu velferðar barna. Þeim fylgja 1,5 milljónir króna sem nota skal til verkefna eða rannsókna er lúta að starfssemi Barnadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss.

Auk þess fær Tónstofa Valgerðar heiðursverðlaun í tilefni 25 ára afmælis starfsemi í þágu fatlaðra barna að upphæð kr. 250.000. Hjálparstofnun kirkjunnar fær úthlutað nú kr. 2.000.000 en sjóðurinn hefur samtals veitt rúmar 6 milljónir króna til þeirrar stofnunar á árinu.

Næst ber að nefna kr. 2.000.000 til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Akureyrar. 800.000 króna styrkur er veittur til uppsetningar sýningarinnar „Ormurinn ógnarlangi - Söguheimur norrænnar goðafræði“. Sýningin verður sett á laggirnar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans í samvinnu við Menningarmiðstöðina Gerðuberg, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert