Höskuldur Þórhallsson fékk 67% atkvæða í annað sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Hann ákvað að bjóða sig fram í annað sætið eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, fékk flest atkvæði í kosningu um fyrsta sætið.
Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 14 kom fram að Höskuldur hefði fengið 231 atkvæði af 345 í annað sætið og var kjöri hans fagnað með standandi lófataki. Ekki hefur náðst í formann kjördæmasambands framsóknarmanna í NA-kjördæmi né Sigmund Davíð en kjördæmaþing stendur nú yfir á Mývatni þar sem valið er í sjö efstu sætin á lista Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi.
Líkt og fram hefur komið fékk Sigmundur Davíð 63% atkvæða í fyrsta sætið og Höskuldur 35%.
Líneik Anna Sævarsdóttir, skólastjóri á Fáskrúðsfirði, fékk næstflest atkvæði í annað sæti listans.