Íslenskt par hafnaði í vatninu við Dronning Louises-brú á Nørrebro í Kaupmannahöfn í nótt. Vegfarandi sem átti leið um lét Neyðarlínuna vita og var þeim bjargað á þurrt land. Konan, sem var mun lengur í vatninu, ofkældist og liggur á gjörgæsludeild, samkvæmt frétt Ekstra Bladet.
Samkvæmt frétt ekstrabladet.dk eru þau bæði 27 ára gömul. Samkvæmt upplýsingum frá vaktstjóra í lögreglunni í Kaupmannahöfn, Jens Kristiansen, er maðurinn við góða heilsu og verður útskrifaður í dag en tilkynnt var um slysið klukkan 5:23 að dönskum tíma, klukkan 4:23 að íslenskum tíma. Ástand konunnar er hins vegar mun alvarlegra þar sem hún var mun lengur í vatninu og var afar köld og hrakin þegar henni var bjargað á landi. Er henni haldið sofandi í öndunarvél.
Að sögn vaktstjóra var björgunarþyrla send á vettvang og björguðu kafarar manninum fljótlega. Hins vegar var konan í vatninu í um 25 mínútur en henni var bjargað klukkan 5:49. Var hún afar hætt komin, segir Kristiansen og segir að ástand hennar sé alvarlegt.
Á vef Berlingske, bt.dk, kemur fram að Íslendingarnir hafi verið ofurölvi og konan hafi kastað sér í vatnið. Maðurinn sem var með henni reyndi að bjarga henni með því að stökkva út í án árangurs. Vegfarandi sem átti leið um brúna hringdi í Neyðarlínuna og þurftu kafarar að leita lengi að konunni. Því hafi verið ákveðið að kalla þyrlu út til þess að lýsa upp svæðið á meðan hennar var leitað.