Konan er komin til meðvitundar

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska konan sem féll í Peblingevatn á Nørrebro í Kaupmannahöfn í nótt er komin til meðvitundar. Konan ofkældist og var henni haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu spítalans í dag en er nú á batavegi.

Atvikið átti sér stað um klukkan hálfsex í morgun að dönskum tíma. Líkt og fram kom í frétt mbl.is í morgun voru íslenskt par, karl og kona um þrítugt, á gangi á Nørrebro þegar konan féll í vatnið. Karlinn hrópaði á hjálp og stökk svo í vatnið á eftir henni. Vegfarendur sem urðu vitni að þessu hringdu á neyðarlínuna. Um talsvert umfangsmikla björgunaraðgerð var að ræða, því kafarar frá slökkviliði Kaupmannahafnar fóru í vatnið á eftir þeim.

Líkamshitinn í 36 gráðum

Haft er eftir vitnum að manninum hafi fljótlega verið hjálpað á land en kafarar hafi fyrst um sinn ekki fundið konuna. Vegfarendur staðfestu hins vegar að tvær manneskjur hefðu lent í vatninu og var því þyrlan notuð til að hjálpa við leitina, en hún var búin myndavél með hitaskynjara. Á endanum fundu kafarar konuna í yfirfallsgöngum sem liggja undir Dronning Louises-brúna. Hún var því um hálftíma lengur en maðurinn í köldu vatninu.

Starfsmaður á Rigshospitalet staðfestir við ekstrabladed.dk að konan sé nú úr lífshættu. „Hún var vakin klukkan 15:30 og var líkamshiti hennar þá við 36 gráður, svo það horfir betur.“

„Fullir Íslendingar“

Nokkuð misjafnt er hvernig danskir fjölmiðlar fjalla um málið. Þannig hendir Berlingske Tidende sem dæmi gaman að öllu saman og talar um að stórrar björgunaraðgerðar hafi þurft við „þegar tveir fullir Íslendingar tóku sundsprett“.

Þar er haft eftir lögreglumanninum Jens Christiansen að upp hafi komið furðuleg aðstaða þegar „tveir dauðadrukknir Íslendingar köstuðu sér í vatnið í fylleríi“. Sagt er að þrátt fyrir að vatnið sé ekki sérstaklega djúpt hafi karlmaðurinn brugðist við af riddaramennsku og hoppað út í á eftir konunni henni til bjargar, en það hafi ekki gengið nógu vel hjá honum.

Haft er eftir lögreglumanninum að þessi einstæða björgunaraðgerð hafi verið það eina sem út af bar í höfuðborg Danaveldis í nótt, að öðru leyti hafi allt gengið sinn vanagang.

Íslenskri konu bjargað naumlega

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert