Forráðamenn matvöruverslunarinnar Iceland færðu í morgun Lífsspori eina milljón króna til styrktar kvennadeild Landspítalans í tilefni af opnun nýrrar verslunar Iceland á Fiskislóð í Reykjavík.
Söfnunarátakið Lífsspor stendur yfir á meðan ferð Vilborgar Örnu Gissurardóttur á suðurpólinn stendur. Vilborg, sem hóf gönguna á pólinn 20. nóvember, tileinkar göngu sína styrktarfélaginu Líf, sem styður við uppbyggingu á kvennadeild LSH. Kvennadeildin hefur um langt árabil þurft á endurnýjun tækja og aðstöðu að halda og hefur Líf styrktarfélag lagt sig í framkróka við að efla hag deildarinnar á síðustu misserum.
Í tilkynningu frá Líf styrktarsjóði segir að framlag Iceland sé ein glæsilegasta gjöfin sem átakið hafi fengið til þessa. Fjöldi styrktaraðila hafi lagt sitt af mörkum eftir því sem liðið hefur á göngu Vilborgar á suðurpólinn en framlag Iceland-verslunarkeðjunnar sé söfnuninni mikil hvatning.
Það voru Jóhannes Jónsson og Guðrún Þórsdóttir eiginkona hans sem afhentu Líf styrktarfélagi framlagið í morgun.
Hægt er að fylgjast með göngu Vilborgar Örnu á suðurpólinn á heimasíðu átaksins Lífsspor og má þar einnig koma áheitum á framfæri.