Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, mun leiða lista flokksins í Norðausturkjördæmi. Hann fékk 63% atkvæða en Höskuldur Þórhallsson 35% atkvæða.
Í hádegisfréttum RÚV kom fram að alls hefðu 350 greitt atkvæði. Sigmundur Davíð hefði fengið 220 atkvæði og Höskuldur 123.
Nú er verið að kjósa um hver muni skipa annað sæti listans en Höskuldur ákvað að bjóða sig fram í annað sætið þegar ljóst varð að hann yrði ekki í fyrsta sæti listans.
Tvöfalt kjördæmisþing Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi hófst í Mývatnssveit klukkan 11:00 í íþróttahúsinu í Reykjahlíð og lýkur kl. 16:00. Á þinginu er kosið um uppröðun frambjóðenda á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í sæti 1.-7.