„Það er náttúrlega þakklæti fyrir afgerandi stuðning og mikil ánægja með það, en ekki síður að sjá hvað þetta er orðinn gríðarlega öflugur framboðslisti. Í rauninni bara frábær listi svo ég hlakka mjög til kosninganna,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sem vann kosningu um efsta sæti á lista Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi í dag um það sem væri honum efst í huga þegar kosningunni væri lokið.
- Það verður ekkert erfitt að vinna með Höskuldi eftir þetta?
„Nei við tókumst á um formennskuna (í Framsóknarflokknum) á sínum tíma og nánast strax eftir það fórum við að vinna mjög vel saman og munum gera það í framhaldi af þessu líka. Við höfum meira að segja ferðast saman í aðdraganda þessara kosninga á fundi og farið mjög vel á með okkur, eins og frambjóðendum öllum þannig að ég hef ekki áhyggjur af því.“
- Hvernig líst þér á framboðslista flokksins í Reykjavík?
„Mér líst mjög vel á hann. Þar fáum við mjög góða blöndu af reyndum stjórnmálamönnum og nýju fólki sem höfðar til mjög breiðs hóps. Þetta er því ákaflega öflugur listi í báðum Reykjavíkurkjördæmunum.“
- Þú talaðir um að þú hygðist flytja í kjördæmið. Er það næst á dagskrá?
„Nú gefst rúm að fara að leita fyrir sér í því hvar maður eigi að koma sér fyrir. Það eru svo margir góðir staðir í kjördæminu að það verður erfitt að velja en það er næst á dagskrá.“
- En hver eru stærstu málin í þessu kjördæmi?
„Það eru þessi stóru tækifæri Íslands sem ég og aðrir framsóknarmenn höfum verið að tala um undanfarin ár. Þau liggja að miklu leyti hér. Mikilvægi matvælaframleiðslu er gríðarlegt og menn horfa fram á jafnvel matvælaskort í heiminum áður en langt um líður svoleiðis að það eru tækifæri til þess að auka mjög við matvælaframleiðsluna hér.
Svo eru það þessar hefðbundnu greinar; iðnaður, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, og svo þessi risastóru tækifæri framtíðarinnar; olíuleitin og siglingar yfir norðurskautið og ekki seinna vænna að fara að undirbúa það og ferðaþjónusta sem er mjög sterk í kjördæminu. Tækifæri í atvinnumálum í þessu kjördæmi eru gríðarlega mikil.“