„Tækifæri Framsóknar runnið upp“

Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður
Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður mbl.is

„Þakklæti til framsóknarmanna í Reykjavík fyrir að veita mér brautargengi til að leiða kjördæmið á ný,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, spurð að því hvað henni væri efst í huga nú þegar ljóst væri að hún myndi leiða flokkinn í því kjördæmi í komandi þingkosningum.

Ofarlega í huga eldmóður og bjartsýni

„Svo náttúrlega er mér ofarlega í huga þessi eldmóður og bjartsýni sem ég fann fyrir á þinginu fyrir góðu gengi flokksins í komandi kosningum. Við ætlum öll að leggjast á eitt og vinna glæsta sigra, ekki bara í Reykjavík heldur um land allt. Ég tel að tækifæri Framsóknarflokksins sé runnið upp að láta að sér kveða og koma sterkur út úr næstu kosningum,“ sagði Vigdís.

Hún segir mörg verkefni framundan, nú fari af stað vinna í kjördæmunum við að stilla saman strengina hjá nýjum frambjóðendum. „Svo komum við til flokksþings aðra helgi í febrúar og mörkum okkar kosningastefnuskrá sem verður öflug og byggist á atvinnumálum og málefnum heimilanna. Huga að forgangsröðun í ríkisrekstri. Það er fyrst og fremst stóra verkefnið sem við þurfum að ganga í,“ segir hún.

„Þeir eru mjög sterkir saman“

„Ég óska honum [Sigmundi Davíð] til hamingju með það og eins óska ég Höskuldi til hamingju með það að ná svona glæsilegum árangri í annað sætið, þannig að þeir eru báðir sigurvegarar að ég tel í sínu kjördæmi og stilla nú saman strengi sína og koma öflugir til baráttu, enda hafa þeir sýnt það á liðnu kjörtímabili að þeir eru mjög sterkir saman og vinna mjög vel saman. Stóðu saman sem einn klettur í gegnum Icesave-málið og reyndar þingflokkurinn allur þannig að þetta er öflug forystusveit sem er verið að velja hjá flokknum þessa helgina.

Svo fær Frosti gríðarlega góðar undirtektir hjá framsóknarmönnum þannig að ég held að þetta sé svakalega öflug sveit,“ segir Vigdís kát að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert