40 m/s undir Hafnarfjalli og Eyjafjöllum

Hvassar hviður eru nú undir Hafnarfjalli.
Hvassar hviður eru nú undir Hafnarfjalli. www.mats.is

Vindhviður allt að 30-40 m/s verða nú undir Hafnarfjalli og Eyjafjöllum en að sögn Vegagerðarinnar mun veðrið ganga niður milli kl. 13 og 15 síðdegis á þessum slóðum. Á Vesturlandi eru sumstaðar hálkublettir, einkum á fjallvegum og útvegum þar sem hefur hlánað með bleytu ofan í snjó. Sumstaðar gæti því verið flughált og varasamt í hvössum hviðum.

Gert er ráð fyrir vaxandi hríðarveðri á fjallvegum á Austfjörðum með kvöldinu og hvössum vindhviðum í Öræfasveit seint í kvöld. 

Hálka er á Sandskeiði og Hellisheiði og krapi í Þrengslunum. Á Suðurlandi er hálka eða hálkublettir á köflum. Undir Eyjafjöllum er auður vegur en þar eru sterkar vindhviður. 

Á Vesturlandi er hálka á Fróðárheiði og hálkublettir á Vatnaleið, Bröttubrekku og Holtavörðuheiði.

Einnig er hálka eða hálkublettir á Vestfjörðum. Þungfært er á Dynjandisheiði en þæfingsfærð á Hrafnseyrarheiði. Á Norðurlandi er víða hálka og snjóþekja er frá Tjörnesi austur í Þistilfjörð. Snjóþekja og skafrenningur er einnig á Hólasandi. 

Á Austurlandi og Suðausturlandi er víðast hvar hálka eða hálkublettir og sumstaðar éljagangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert