Ræninginn enn ófundinn

Sérsveit lögreglu var kölluð út þegar vopnað rán var framið …
Sérsveit lögreglu var kölluð út þegar vopnað rán var framið í söluturni við Grundarstíg. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Lögregla leitar enn mannsins sem framdi vopnað rán í söluturni á Grundarstíg skömmu fyrir miðnætti á föstudagskvöld. Ekki er ljóst hvers konar skotvopn maðurinn bar og er talið hugsanlegt að skotið sem hleypt var af hafi verið púðurskot.

Hákon Sigurjónsson rannsóknarlögreglumaður segir að verið sé að fara yfir upptökur úr öryggismyndavél, lýsingu starfsmanns á ræningjanum og annað. Ekki sé rétt að einn ákveðinn maður sé grunaður, eins og fram hefur komið í sumum fjölmiðlum, heldur sé talið hugsanlegt að um sé að ræða einhvern úr hópi góðkunningja lögreglu en nokkrir komi þar til greina. 

Maðurinn huldi andlit sitt að hluta og ávarpaði afgreiðslumann söluturnsins á bjagaðri ensku. Ekki er þó víst að um útlending hafi verið að ræða. Hann hafði á brott með sér milli 20 og 30 þúsund krónur úr kassa verslunarinnar. Sérsveit lögreglu var kölluð út á föstudagskvöld þegar tilkynnt var að ræninginn bæri skotvopn. Engan sakaði.

Þeim sem hafa upplýsingar um málið er bent á að hafa samband við lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert