Eldur kom upp í sinu í landi Árbakka í Rangárþingi ytra nú um ellefuleytið í morgun. Slökkvilið Rangárvallasýslu hefur verið kallað út en að sögn varðstjóra er ekki talin mikil hætta af eldinum.
„Þetta er nú ekki mikið, en er á leiðinlegum stað,“ segir Guðni Kristinsson, varðstjóra í Slökkviliði Rangárvallasýslu. Sinubruninn er í landi Árbakka, um 5-6 km ofan við Hellu, og standa hús ekki fjarri staðnum þar sem eldurinn logar.
Guðni segir hins vegar að vindurinn standi frá byggingunum og ætti eldurinn því ekki að breiðast þangað. Aðspurður segist hann telja að greiðlega muni ganga að ná stjórn á eldinum, en ekki er ljóst hvernig hann kviknaði. Slökkvilið er nú komið á staðinn með vatnsbíl og dælubíl.