Þeir sem keyptu Sementsverksmiðju ríkisins árið 2003 greiddu aldrei kaupverðið og eftir að Íslenskt sement ehf., sem keypti verksmiðjuna, fór í gjaldþrot fékk ríkið 12 milljónir út úr þrotabúinu.
Fjárlaganefnd fjallar um þetta mál í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings.
Sementsverksmiðjan hf. var seld Íslensku sementi ehf. í október 2003. Kaupverðið var 68 milljónir en það var hins vegar aldrei innt af hendi og gagnrýndi Ríkisendurskoðun hvernig haldið var á þessum málum af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytis og eftirlitsstofnana sem komu að málinu. Um mitt ár 2011 var staðfestur nauðasamningur fyrir Íslenskt sement ehf., þar sem kröfuhöfum var boðið að greidd yrðu 9,78% af kröfum innan tveggja vikna frá staðfestingu nauðasamnings eða greidd yrðu 19,23% af kröfum með útgáfu skuldabréfs til 15 ára. Ríkissjóður valdi fyrri kostinn og voru tæpar 12 millj. kr. greiddar í ríkissjóð í júlí 2011.
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu og Íslenskt sement ehf. sem er í eigu Framtaks Fjárfestingarbanka hf., BM Vallár ehf., Norcem AS og Björgunar ehf. gerðu samkomulag um kaup fjárfestanna á öllum hlutabréfum í Sementsverksmiðjunni hf. Fjárfestarnir sem stóðu að baki Íslensku sementi ehf. voru valdir úr hópi fimm aðila sem skiluðu inn tilboðum í lok mars 2003.
„Innsend tilboð voru metin heildstætt út frá einkunnagjöf og viðræðum við tilboðsgjafa þar sem tekið var tillit til verðs, áhrifa sölu á samkeppni á íslenskum byggingarmarkaði, fjárhagslegs styrks og lýsingar á fjármögnun, framtíðarsýnar varðandi rekstur fyrirtækisins og starfsmannamál, stjórnunarlegrar reynslu og þekkingar á þeim markaði sem verksmiðjan starfar á,“ segir í fréttatilkynningu frá framkvæmdanefnd um einkavæðingu.
Í tengslum við söluna tók ríkissjóður yfir lífeyrisskuldbindingar og tilteknar eignir í eigu Sementsverksmiðjunnar hf. sem tengjast ekki rekstri hennar. Samkomulagið var áritað með fyrirvara um að hægt yrði að uppfylla tiltekin skilyrði.
Fjárlaganefnd óskaði nánari upplýsinga frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Ríkisendurskoðun um hvaða ástæður stofnanirnar teldu vera fyrir því að innheimtan endaði með þeim hætti sem lýst er í skýrslunni. Í svarbréfi Ríkisendurskoðunar kemur fram, að það hafi tekið ESA fimm ár að gefa álit á sölunni og Samkeppniseftirlitið ár í viðbót til að gefa sitt samþykki. Á þessum tíma rann út bankaábyrgð fyrir greiðslu kaupverðs og kaupandinn var kominn í greiðsluþrot. Í framhaldinu var samþykktur nauðasamningur sem skilaði fyrrgreindri fjárhæð í ríkissjóð. Vegna fyrirvaranna var ákveðið að kaupverð yrði ekki greitt við undirritun heldur mundi seljandi útvega bankaábyrgð fyrir allri fjárhæðinni en vegna mistaka við skjalagerð var bankaábyrgðin ekki höfð ótímabundin eins og gert var ráð fyrir í sölusamningi.
Fjárlaganefnd telur skýringar fjármála- og efnahagsráðuneytisins á afdrifum málsins ófullnægjandi þar sem innra eftirlit ríkisins átti að sjá til þess að kröfurnar töpuðust ekki þrátt fyrir þá agnúa sem fyrir hendi voru. Eins og fyrr greinir voru fjárhagslega sterkir aðilar valdir til kaupanna og þeir hefðu átt að vera færir um að útvega þær tryggingar sem öruggar voru taldar og fjármála- og efnahagsráðuneytinu bar að sjá til þess að verkferlar héldu þessu máli í lagi. Fjárlaganefnd beinir þeim tilmælum til ráðuneytisins að málið verði afgreitt innan þess með tilhlýðilegum hætti og að ráðuneytið fari yfir veikleika í verkferlum auk þess að endurskoða vinnubrögð og eftirlit með efnahagsreikningum svo að atburðir sem þessi geti ekki endurtekið sig.
Fjárlaganefnd hefur óskað eftir að ráðuneytið skili fjárlaganefnd skýrslu eða ýtarlegu minnisblaði um ferli sölunnar og hvernig staðið var að innheimtu söluandvirðisins. Á grunni þeirrar skýrslu mun fjárlaganefnd gera tillögu um frekari skoðun á málinu ef þörf er á.