Fyrsta degi af fjórum er lokið. Aðalmeðferð í fyrsta alvöru máli sérstaks saksóknara. Ekki aðeins undirmenn heldur sjálfur bankastjóri Glitnis banka. Ákærður fyrir umboðssvik og á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi. Hann og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. Fyrsti dagurinn minnti um tíma á Baugsmálið.
Án þess að fara nákvæmlega í ákæru málsins má lesa um hana hér, og svo má lesa um skýrslutöku yfir Lárusi Welding frá því í morgun hér, skýrslu Guðmundar Hjaltasonar hér og starfsmanns á alþjóðasviði bankans hér. Þá er það frá.
Andrúmsloftið var hvorki þrúgandi né spennuþrungið í morgun. Töluvert fleiri sátu í gestasætum en vanalega en eins og gengur og gerist fækkaði þegar leið á daginn. Um klukkan sjö í kvöld voru fáir eftir og seinni vakt Ríkisútvarpsins var orðin óþolinmóð. Dómþingið dróst enda á langinn, átti að vera lokið klukkan fjögur. En spurningarnar voru margar, sumar komu málinu ekkert við og varla sum vitnin.
Athyglisvert var við daginn hversu mikið dómararnir spurðu. Í málinu er fjölskipaður dómur, Símon Sigvaldason dómsformaður og með honum Skúli Magnússon héraðsdómari og svo sérfræðingur sem því miður var ekki kynntur með nafni.
Það er náttúrlega ekkert skemmtilegt við mál þar sem menn eru ákærðir og eiga yfir höfði fangelsisvist. En spurningar dómara fóru á köflum nokkuð út fyrir efni ákærunnar og um tíma snerust þær aðallega um það hvernig starfsemi banka fór fram í febrúar 2008 og orðfærið innan bankans. Ekki verður dregið í efa að það sé gagnlegt við úrlausn málsins. Það var alla vega gagnlegt fjölmiðlamönnum sem ekki kunna skil á slangri bankamanna eins og það birtist á lokadögum góðærisins, þ.e. eins og góðærið blasti við landsmönnum.
Nú er málið auðvitað töluvert flókið en svo virðist sem rauði þráðurinn í því sé að lán sem átti að fara til Vafnings gerði það ekki og fór til Milestone. Það var föstudaginn 8. febrúar 2008. Leiðréttingar voru svo gerðar mánudaginn 12. febrúar og lánið var skráð eins og það hefði runnið til Vafnings.
Þarna segir sérstakur saksóknari að maðkur sé í mysunni. Guðmundur og Lárus segjast hins vegar hafa undirritað lánasamning við Vafning 8. febrúar og ekki búist við öðru en að lánið myndi renna þangað, án þess að það hefði millilendingu hjá Milestone.
Hvorugur þeirra gat hins vegar skýrt hvernig stóð á því að lán til Vafning breyttist í peningamarkaðslán til Milestone frá þeim tíma sem þeir skrifuðu undir skjölin, sem má slá sem föstu að hafi verið á milli kl. 12 og 14, miðað við skýrslu yfir Guðmundi fyrir dómi í morgun, og þar til lánið fór út úr húsi rétt eftir klukkan þrjú sama dag.
„Það virðist óviljandi hafa gerst að það vantaði nafn Vafnings í kerfi bankans og það hafi óviljandi gerst að greiðslan fór á Milestone,“ sagði Lárus.
Og Guðmundur sagði þetta ekki hafa skipt neinu máli. „Lánið var veitt Vafningi á föstudeginum og borgað á mánudeginum. [...] Helstu skýringar sem ég kann á því [að lánið hafi verið til Milestone] er að eitthvað hafi komið upp á á síðustu stundu sem leiddi til þess að Milestone tók lánið yfir, yfir helgi. Þetta hafi verið bókhaldslegt mál fyrir bankann, ekki lán til Milestone, og engin áhætta fyrir bankann.“
Enginn þeirra tíu starfsmanna sem komu fyrir dóminn í dag gat sagt hvernig það gerðist að lánið til Vafnings varð að peningamarkaðsláni til Milestone. Það var sama hvort þeir hafi skrifað greiðslufyrirmælin á skjöl þess efnis að peningamarkaðslánið var greitt. Nei, enginn gat sagt til um það hvernig það gerðist. Minnið brást eins og öllum stjórnarmönnum Baugs forðum. Svona endurtekur sagan sig.
Fyrir þá sem lásu ekki ákæruna þá sneri málið að því að bandaríski bankinn Morgan Stanley gjaldfelldi lán félagsins Þáttar sem tengdist Milestone nánum böndum, þ.e. Milestone var í ábyrgð fyrir skuldum Þáttar og Morgan Stanley var með hlutabréf í Glitni að veði.
Greiða þurfti Morgan Stanley fyrir klukkan 15 föstudaginn 8. febrúar 2008.
Áhættunefnd Glitnis samþykkti að veita lán til Vafnings, nýs félags, sem stóð fyrir utan Milestone-samstæðuna. Í ákæru segir að það hafi verið vegna þess að bankinn hafi ekki getað lánað Milestone frekari fjármuni, en stjórnendur bankans báru það til baka fyrir dómi. Sögðust vilja fá nýtt og hreint félag í málið.
Dómarar spurðu Guðmund Hjaltason hvers vegna hefði legið svona á einmitt þennan föstudag í febrúar. Hvort ekki hefði verið hægt að fá greiðslufrest um nokkra daga, koma Vafningi á koppinn og gera þetta með almennilegum hætti.
Guðmundur sagði það hins vegar ekki hafa gengið upp. Reynt hefði verið að fá greiðslufrest en Morgan Stanley hefði verið ósveigjanlegur og vildi fá greitt á þessum tiltekna degi. Það hefði þá skýrt þennan hraða umræddan dag.
Lárus hins vegar fjarlægði sig töluvert frá þeim skarkala sem fylgdi þessu máli. Sagðist hafa verið í Indlandi þegar þetta hófst, og undirritaði svo bara þau skjöl sem lögð voru fyrir hann. Hann hefði treyst því að verið væri að fylgja eftir ákvörðun áhættunefndar bankans um samþykkt láns til Vafnings. Ekkert hefði verið rætt um lán til Milestone þar.
Meðal þess sem gerðist við aðalmeðferðina í dag var að saksóknari spilaði upptöku á símtölum. Þannig var að öll símtöl á ákveðnum sviðum Glitnis voru tekin upp. Þar á meðal var símtal fjármálastjóra Glitnis og forstöðumanns deildar millibankamarkaðar.
„Ég treysti ekki þessari Milestone-fléttu,“ sagði fjármálastjórinn meðal annars. „Þetta er skítaflétta,“ sagði forstöðumaðurinn og fjármálastjórinn endurtók: „Þetta er skítaflétta.“ Traustleysið kom vegna þess að Glitnir þurfti að standa skil á stórum gjalddaga 22. febrúar. Ef fjármagn hefði vantað þá var ekki að spyrja að leikslokum, sem reyndar voru svo í september. En það er önnur saga.
Þeir komu náttúrlega báðir fyrir dóminn í dag, fjármálastjórinn og forstöðumaðurinn, og voru beðnir um að skýra það sem þeir sögðu. Fjármálstjórinn sagði erfitt að útskýra orð sín. Hann hefði bara tekið undir orðin. „En þetta var svolítið snúið fyrir bankann að veita útlán á þessum tíma og fá innlán á sama tíma.“
Með innlánum á sama tíma vísar hann í fléttu sem fólst í því að sænskt félag Milestone flutti fjármagn inn í Glitni til að jafna það sem fór út úr bankanum, sökum þess hversu viðkvæmt ástandið var á fjármálamörkuðum. Það fé var hins vegar ekki komið inn á reikninga Glitnis þegar peningamarkaðslánið var veitt Milestone.
Þá sagðist fjármálastjórinn ekki treysta „Þessum Milestone-mönnum“ og var spurður út í það. Hann sagði þá erfitt að leggja túlkun í orð sem hann hafði uppi fyrir fimm árum. Rifjaði svo upp aðdraganda þessara viðskipta og sagði að stundum þyrfti að velja illskásta kostinn þó hann væri manni ekki þóknanlegur.
Aðalmeðferð í málinu heldur áfram á morgun og hefst á skýrslutöku yfir fulltrúa félags Milestone í Svíþjóð sem flytja átti fé til Glitnis sem innlán til að vega upp á móti útflæði af reikningi bankans.
Þannig það sé tekið saman þá eru tíu vitni búin að koma fyrir dóminn, tólf með ákærðu, og talað var um að þrjátíu vitni væru á vitnalista. Áhugavert verður að sjá hvernig gengur með skýrslutökur á morgun og hvort það takist að halda áætlun, sem gekk alls ekki í dag.
Reyndar má benda á athugasemdir verjenda sem lúta að því að skýrsla hafi ekki verið tekin af starfsmönnum Glitnis áður. Og það átti við um mörg þeirra vitna sem gáfu skýrslu í dag. Það voru starfsmenn sem komu mjög nálægt þessum gjörningum og vakti verjandi Guðmundar sérstaklega athygli á því og sagði að það hlyti að koma til skoðunar.
Áætlaðir eru fjórir dagar í aðalmeðferðina sem gert er ráð fyrir að ljúki á föstudag.