Deiliskipulag Landspítalans var samþykkt á aukafundi skipulagsráðs Reykjavíkur sem haldinn var í dag. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn tillögunni og segja að ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda borgarbúa. Fulltrúi meirihlutans segir þvert á móti að það hafi verið gert og vonast til að sátt náist um framkvæmdina.
„Fá mál hafa átt sér jafn langan aðdraganda eða jafn langan kynningarferil eins og þessi framkvæmd, enda kannski engin furða. Athugasemdirnar sem komu fram í kjölfar auglýsingar deiliskipulagsins eru innihaldslega þær sömu og komu fram á kynningarferlinu,“ segir Hjálmar Sveinsson, fulltrúi meirihlutans í skipulagsráði.
„Það var komið til móts við þær að nokkru leyti. Það var til dæmis fallið frá upphaflegum áætlunum um að Barónsstígur færi yfir Einarsgarð og eins gerðu ríkið og borgin samkomulag um að ríkið afsalaði sér byggingarétti á svokölluðum U-reit (þar sem Umferðarmiðstöðin er staðsett) en nágrannar höfðu haft nokkrar áhyggjur af uppbyggingu þar.“
Að sögn Hjálmars var farið vandlega yfir athugasemdir um umferðarmál sem bárust á kynningarferlinu og gerðar ýmsar úttektir þar að lútandi.
„Það er vel skiljanlegt að allar þessar athugasemdir hafi borist. Þær lúta einkum að þrennu, staðsetningu, byggingarmagni og umferðarmálum. Við teljum að það hafi verið sýnt fram á að staðsetningin sé skynsamleg, umferðarmálin ásættanleg og að byggingaraðilar hafi fært rök fyrir því byggingarmagni sem þeir telja nauðsynlegt.“
„Að auki er þetta allt komið inn á svokallaðan reit B, en var áður líka á reitum U og C. Nú er búið að þrengja verulega að því svæði sem til stóð að byggja á fyrir tveimur árum, þannig að það hefur heilmikið breyst að mínu mati,“ segir Hjálmar.
Hann segir að öllum athugasemdum hafi verið svarað ýtarlega.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulagsráði eru á öðru máli. Í bókun þeirra segir að með afgreiðslunni í dag sé verið að glata einstöku tækifæri til að styrkja spítalastarfsemi á svæðinu með skynsamlegri uppbyggingu í sátt við eldri byggð. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fallast ekki á slíka óraunhæfa uppbyggingu sem mun verða óafturkræf,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna.
Í bókun sinni benda fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á að ekki liggi fyrir samkomulag við lífeyrissjóði um fjármögnun verkefnisins. Fjármögnun þurfi að hugsa upp á nýtt sem opinbera framkvæmd og breyta lögum vegna þess. „Skipulagsráð ætti því að nýta tímann til þess að skoða þetta mál betur í stað þess að boða til aukafundar í skipulagsráði og í borgarstjórn til þess að klára málið á miklu meiri hraða en talist getur eðlilegt,“ segir í bókuninni.
Hjálmar segir fjármögnun framkvæmdanna vera mál ríkisstjórnarinnar.
En hvað með fjármögnun? „Hún kemur okkur í rauninni ekkert við. Við erum ekki að byggja spítalann, við erum eingöngu að afgreiða deiliskipulag. Stundum virkar þetta eins og borgin byggi spítalann, en það er alls ekki þannig,“ segir Hjálmar.
Ekki hefur náðst samstaða um svæðisskipulagið. Hvaða áhrif hefur það á framkvæmdina? „Svæðisskipulagsvinnan strandar á Kjós. En við teljum að það stöðvi ekki skipulagsráð í því að samþykkja þessar tillögur. En borgarráð verður að taka fyrir hvað það þýðir þegar eitt sveitarfélag neitar að skrifa undir breytingu á svæðisskipulagi,“ segir Hjálmar.
Hann segist gera ráð fyrir að skipulagið fari fyrir borgarráð næstkomandi fimmtudag og fyrir borgarstjórn í næstu viku.