Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo er bæði reiður og pirraður yfir þeirri meðferð sem hann hefur hlotið í tengslum við Grímsstaðamálið. Í viðtali við Bloomberg segist Huang ekki ætla að gefast upp, en hann tekur fram að hann hafi ekki fengið neinar frekari upplýsingar frá íslenskum stjórnvöldum.
Huang, sem er stjórnarformaður Zhongkun fjárfestingarfélagsins, segir í viðtalinu að íslensk stjórnvöld hafi ekki beðið sig um að senda viðbótarupplýsingar eða senda inn nýja umsókn í tengslum við áhuga sinn á því að reisa hótel í landi Grímsstaða á Fjöllum. Hann segist ekki vita hvaða upplýsingar hann eigi að láta yfirvöldum í té og bætir við að sér hafi ekki verið gefinn neinn frestur.
„Ég er mjög reiður og pirraður yfir því hversu slæmt viðskiptaumhverfið er á Íslandi,“ segir Huang í símaviðtali við Bloomberg. „Ég mun ekki vera fyrri til og draga umsóknina til baka. Ég vil fremur bíða eftir því að þau segi að þau fagni ekki mínum fjárfestingum,“ segir Huang.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki tekið neina endanlega ákvörðun í tengslum við umsókn Huangs en þau segja að upplýsingar skorti, að því er segir í frétt Bloomberg.
Huang sagði í júlí sl. að sér hefði tekist að ná samkomulagi við stjórnvöld um að fá að leigja landið í stað þess að kaupa það.
„Það eru íslensk stjórnvöld sem buðu mér að fjárfesta. Kannski átti ég ekki að vera svona rómantískur, heldur varfærinn,“ segir Huang.
Hann bætir því við að hann muni endurskoða fjárfestingaráætlun sína á Norðurlöndum fari svo að íslensk stjórnvöld hafni fyrirætlunum hans endanlega.
Nýverið var greint frá því í Morgunblaðinu að félagið Zhongkun Grímsstaðir ehf., sem kínverski fjárfestirinn Huang Nubo á meirihlutann í, hafi tilkynnt ráðherranefnd um Grímsstaði að það hyggist leggja fram frekari gögn vegna umsóknar sinnar um leyfi til að reisa hótel í landi Grímsstaða á Fjöllum. Í bréfi til Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra er um leið óskað eftir því að ráðherranefndin taki ekki afstöðu til fyrirhugaðs fjárfestingarsamnings milli Zhongkun og íslenskra stjórnvalda fyrr en gögnin hafa verið lögð fram. Talað er um að gögnin berist ráðuneytinu „á næstu mánuðum“. Vill félagið skýra áform sín ítarlegar í ljósi umræðu og ábendinga um málið á meðan viðræður hafa staðið yfir.