Björgunarsveitin Hérað á Egilsstöðum hefur verið kölluð út til að aðstoða fjóra erlenda ferðamenn sem festu bíl sinn á veginum um Breiðdalsheiði. Engin vetrarþjónusta er á veginum, sem hefur verið ófær undanfarna tvo mánuði. Lögreglan á Egilsstöðum segir að útköll af þessu tagi berist oft í viku hverri, fyrst og fremst frá erlendum ferðamönnum.
Ekkert mun ama að fólkinu sem nú er verið að aðstoða.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilsstöðum hafa um þrjú til fjögur útköll af þessu tagi borist í viku hverri að undanförnu. Eitt slíkt var í morgun, en þá hafði erlendur ferðamaður, sem festi bíl sinn og var einn á ferð gengið til byggða eftir að hafa látið fyrirberast í bíl sínum um nóttina.
Vonskuveður var á þessum slóðum, en eftir um klukkutíma göngu kom hann að bæ, þar sem hann hlaut aðhlynningu. Maðurinn var nokkuð kaldur og hrakinn, en honum mun ekki hafa orðið meint af volkinu.
Á vefsíðu Vegagerðarinnar er vegurinn um Breiðdalsheiði merktur með rauðum lit, sem þýðir að hann er ófær. Að auki hefur stóru skilti verið komið fyrir á leiðinni frá Egilsstöðum, þar sem ástand vegarins er ítrekað, en það virðist ekki hamla för fólks.