Samþykktu frumvarp um stjórn fiskveiða

Þingflokkur Samfylkingarinnar.
Þingflokkur Samfylkingarinnar. mbl/Ómar

Þingflokkur Samfylkingarinnar samþykkti í dag frumvarp um stjórn fiskveiða. Nokkrir þingmenn eru með fyrirvara við stuðning við frumvarpið. Þingflokkur VG hafði áður samþykkt að frumvarpið yrði lagt fram en þar eru einnig fyrirvarar settir.

Kvótafrumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn og kynnt þingflokkum Vinstri grænna og Samfylkingar í síðustu viku.

Oddný Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir að nokkrir þingmenn séu með fyrirvara við stuðning við frumvarpið „eins og gengur og gerist í svona stóru máli, enda er þetta frumvarp málamiðlun.“

Oddný segist reikna með að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi á næstu dögum.

Lúðvík Geirsson, þingmaður Samfylkingar, sagði í Morgunblaðinu í dag að nokkuð skiptar skoðanir væru um það innan þingflokks Samfylkingar hversu langt ætti að ganga gagnvart kröfum flokksins í þessu máli. „Það er líka ljóst að það hefur ekki verið meirihlutastuðningur á þinginu við okkar ýtrustu kröfur. Menn þurfa því að meta hvort þeir eru tilbúnir að fara fram með frumvarpið í núverandi mynd og ná því sem hægt er eða láta málið kyrrt liggja. Við vorum með eldri kröfur um fyrningarleið og viljum útfæra þær á nýjan máta með því að opna á stærra kvótaþing og tryggja þannig að sem stærstur hluti afla fari á markað – að kerfið virki þannig að það stækki pottinn og að sem mestur fiskafli fari á markað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert