Segir kosningabrag á Landspítalamáli

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson. Júlíus Vífill Ingvarsson

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur segja að þær athugasemdir, sem  meirihlutinn tók tillit til við afgreiðslu deiliskipulags nýs Landspítala, eigi ekki við um það deiliskipulag sem auglýst hefur verið, heldur um allt annað ferli. Ótækt sé að skipulagið hafi verið samþykkt í skipulagsráði í dag án þess að fjármögnun liggi fyrir. „Kosningabragur“ sé á málsmeðferðinni.

„Mér finnst það vera mjög merkilegt að svona umdeilt skipulag, sem fær á níunda hundrað athugasemdir, skuli hafa verið afgreitt úr skipulagsráði án þess að tekið hafi verið tillit til svo mikið sem einnar einustu athugasemdar,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í skipulagsráði.

„Þær breytingar sem voru gerðar á skipulaginu eiga ekki við um auglýst deiliskipulag, heldur allt annað ferli.“

Júlíus Vífill segir að margar athugasemdanna hafi verið afar ítarlegar.  „Það er ekki eins og þetta sé einhver nafnasöfnun á netinu, heldur eru þær margar svo greinargóðar. Það er augljóst að fólk hefur lagt sig virkilega fram við að kynna sér málin og fá álit frá sérfræðingum. 

Óskiljanleg afgreiðsla

Júlíus Vífill segir að afgreiðsla skipulagsins sé óskiljanleg í ljósi þess að hvergi nærri hafi verið gengið frá fjármögnun framkvæmdarinnar. 

„Það kom í ljós á föstudaginn var að lífeyrissjóðirnir og aðrir sem ætluðu að koma að þessu hafa ekki verið í sambandi við framkvæmdaaðilann undanfarin tvö ár. Mér finnst alveg sérstaklega skrýtið að verið sé að reka á eftir Reykjavíkurborg með þeim hætti sem gert hefur verið, ef fjármagnið liggur ekki fyrir. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að það eru kosningar framundan. Það er einhvern veginn sá bragur á þessu að það eigi að koma þessu í gegn fyrir kosningar.“

Hann bendir á að svæðisskipulagið hafi ekki verið samþykkt af tveimur nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, Kjósarhreppi og Seltjarnarnesi. „Skipulaginu var hafnað í Kjós og Seltirningar eiga eftir að taka afstöðu til þess. Það þarf að vinna úr þessu.“

„Það er búið að skapa ótta, úlfúð og deilur fólks sem býr þarna í næsta nágrenni. Væri ekki réttast af Reykjavíkurborg að kanna hversu langt menn eru tilbúnir að ganga í fjármögnuninni?“

Frétt mbl.is: Deildar meiningar um deiliskipulag

Skipulag nýja Landspítalans.
Skipulag nýja Landspítalans. Landspítalinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert