„Kæra Jóhanna. Þinn tími kom og enn hefur þú tíma til að láta gott af þér leiða,“ segir Þórir N. Kjartansson, fyrrv. framkvæmdastjóri Víkurprjóns, í opnu bréfi í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Þórir m.a.: „Við erum líklega bæði á sama báti með það að vera að hætta í vinnu sem við höfum stundað undanfarna áratugi og bæði teljum við okkur væntanlega geta litið yfir ævistarfið með stolti. Nú fer í hönd hjá okkur sá tími þegar samfélagið þakkar okkur fyrir vel unnin störf í formi tryggingabóta frá ríkinu og til viðbótar fáum við greiðslur úr lífeyrissjóðnum okkar. Eða hvað? Þegar höfundur þessara skrifa fór að athuga með trygginga- og lífeyrissjóðsgreiðslur komst hann að því að ríkið mun gera upptækan þann litla lífeyrissparnað sem hann á, í formi skerðinga á elli- og tekjutryggingu“.
Lokaorð Þóris eru þessi: „Skerðing Tryggingastofnunar á ellilaunum og tekjutryggingu þinni 73.000 kr. er þá u.þ.b. 8,7%. Nú þykist ég vita að þú hafir unnið þessu þjóðfélagi meira gagn en ég en hvort það réttlætir að ríkið skerði mínar lífeyrisgreiðslur 100% en þínar aðeins um 8,7% held ég að sé kannski heldur gróft. Kæra Jóhanna, það væri verðugt verkefni að þú leiðréttir þetta brýna hagsmunamál hinna almennu lífeyrisþega á þínum síðasta þingvetri.“