Besta fjárlagafrumvarp stjórnarinnar

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að taka skref til baka með að endurreisa virðingu Alþingis,“ sagði Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, í umræðum í þinginu í dag og beindi þar orðum sínum að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins vegna annarrar umræðu um fjárlög ársins 2013. Sakaði hann þingmennina um málþóf í umræðunni.

Sagði Magnús að um besta fjárlagafrumvarp væri að ræða sem núverandi ríkisstjórn hefði lagt fram þar sem horfið hefði verið frá niðurskurði og uppbyggingastarf hafið. Þá gripu stjórnarandstöðuþingmenn til málþófs, sagði hann. Þá sagði hann þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ekki hafa lagt fram neinar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

„Við í stjórnarandstöðunni höfum bent á marga galla, eyður og vankanta á því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir en í raun hefur verið fátt um svör,“ sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og benti á sem dæmi að hann hefði sjálfur spurt ítrekað um ýmsa liði sem tengdust fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Þar hefðu „allt í einu fundist peningar“ til þess að setja í ýmis verkefni sem hefðu yfir sér „grænan blæ“ á sama tíma og menn ættu í mestu vandræðum með að fjármagna ýmis af grundvallarverkefnum ríkisins.

Þá hefði líka verið kallað eftir nánari upplýsingum um stærri liði eins og til dæmis hvað ríkisstjórnin ætlaðist fyrir varðandi Íbúðalánasjóð og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkis sem snerust um milljarða og jafnvel tugi miljarða sem gert gætu stöðu ríkissjóð miklu verri en hún liti út samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert