„Ekkert sérstaklega mikið gamanmál“

Merki Milestone
Merki Milestone

„Þetta mál var ekkert sérstaklega mikið gamanmál,“ sagði Guðmundur Ólason, fyrrverandi forstjóri Milestone, við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir forstjóra Glitnis banka og framkvæmdastjóra hjá sama banka. Þar vísaði hann til peningamarkaðsláns til Milestone sem fór í að greiða upp lán félagsins Þáttar hjá Morgan Stanley.

Í málinu eru Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé Glitnis í stórfellda hættu með að lána Milestone 102 milljónir evra, um tíu milljarða króna, án trygginga eða ábyrgða 8. febrúar 2008. Lánið var notað til að greiða lán Þáttar hjá Morgan Stanley sem hefði annars gjaldfellt það um miðjan dag 8. febrúar.

Eins og komið hefur fram samþykkti áhættunefnd Glitnis 6. febrúar 2008 að veita lán til Vafnings, óstofnaðs félags, til greiðslu láns Þáttar. Þegar kom að því að greiða lánið 8. febrúar var það hins vegar ekki greitt til Vafnings heldur Milestone. Fjármunirnir fóru þó til Morgan Stanley, eins og ávallt stóð til.

„Hefði ekki sagt stopp“

Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, kom fyrir dóminn í morgun og leitaðist við að skýra það hvers vegna lánið fór til Milestone, en hann sagðist hafa verið mættur á fund í Glitni umræddan dag, þ.e. 8. febrúar, til að skrifa undir lánasamninga fyrir hönd Vafnings. „Leikar fóru að æsast þegar klukkan nálgaðist þrjú. [...] Ég man ekki hvaða pappírar komu þarna inn en þeir voru með skjalapakka. [...] Síðan kemur það upp að lánið fór til Milestone í formi pm-láns. Þegar ég hef verið að rifja þetta upp er helsta skýringin sú að þarna hafi eitthvað komið upp á í bakvinnslunni eða eitthvað sem gerði það að verkum að nauðsynlegt var að borga lánið út í gegnum Milestone. Við vorum allir á svæðinu og með umboð til að gera hvað sem [va]r til að koma greiðslunni í gegn. Ég hefði ekki sagt stopp við því að setja þetta á Milestone til að koma þessu í gegn. Það virðist hafa verið lendingin.“

Hann tók hins vegar skýrt fram að ávallt hafi verið litið svo á að Vafningur hafi verið að taka lánið, enda var það fært á Vafning strax 11. febrúar, þ.e. mánudaginn eftir. „Lánið var aldrei til ráðstöfunar inni í Milestone. [...] Það var greitt til Morgan Stanley en við litum aldrei á að það hafi verið Milestone sem greiddi heldur að þetta hafi verið mál bankans hvernig þetta var greitt.“

Guðmundur staðfesti að hann hefði verið á fundum allan daginn, eða til hálf-fjögur þegar staðfesting á greiðslu barst, og þar hafi alls kyns hugmyndir komið fram. Lánasamningur við Vafning hafi verið undirritaður áður en tekin var ákvörðun um að greiða lánið til Milestone. Saksóknari spurði hver hefði tekið ákvörðunina um peningamarkaðslánið og ekki stóð á svari: „Það veit ég ekki.“ Hann neitaði því að hann hafi sjálfur óskað eftir peningamarkaðssláni og sagði tilgang fundarins ávallt hafa verið lántaka Vafnings.

Dómari benti svo Guðmundi á að peningamarkaðslánið hefði kostað 40 þúsund evrur og menn geri sér væntanlega grein fyrir því þegar þeir baki sér slíkan kostnað. Guðmundur sagði þá málið í heild ekki hafa verið gamanmál, hins vegar hafi menn hugsað sér að Vafningur tæki á sig þann kostnað að halda peningamarkaðsláninu yfir helgina.

Spurður út í endalok Vafnings sagði Guðmundur að á endanum hefðu lánin hækkað og eignirnar minnkað, það sé ekki góð formúla. Glitnir hafi á endanum leyst það til sín.

Aðalmeðferðin heldur áfram.

Lárus Welding
Lárus Welding mbl.is/Andri Karl
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka