Önnur umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar vegna ársins 2013 er hafin á ný og eru nú níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á mælendaskrá auk núverandi ræðumanns, Tryggva Þórs Herbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Enginn stjórnarliði hefur hins vegar skráð sig á mælendaskrána.
Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, gerði það að tillögu sinni við upphaf þingfundar eins og áður að fundurinn gæti staðið lengur í dag en þingsköp gerðu ráð fyrir. Óskað var eftir atkvæðagreiðslu um tillöguna og var hún samþykkt með atkvæðum 27 þingmanna stjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar. 13 þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn henni.
Fyrir vikið má gera ráð fyrir að umræðan í dag kunni að standa yfir fram á kvöld eins og undanfarið en önnur umræða um fjárlagafrumvarpið hófst 29. nóvember síðastliðinn.