„Hvað með það?“

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn

„Ég hvet stjórnarandstöðuna til þess að sjá að sér,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, á Alþingi í dag og fór hörðum orðum um framgöngu stjórnarandstöðuþingmanna sem hann sakaði um málþóf vegna annarrar umræðu um fjárlög fyrir árið 2013.

Sagði hann óásættanlegt að óskyld mál eins og fjárlög, sem þyrfti samkvæmt stjórnarskrá að afgreiða og væru meðal annars forsenda þess að hægt yrði að greiða opinberum starfsmönnum laun, væru notuð til þess að tefja fyrir öðrum og vísaði þar meðal annars til frumvarps að nýrri stjórnarskrá. Gagnrýndi hann ennfremur lengd umræðunnar um fjárlögin sem staðið hefur yfir undanfarið. Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýndi einnig stjórnarandstöðuþingmenn og sagði að Alþingi réði ekki við hlutverk sitt og hefði brugðist.

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, mótmælti þeim orðum Steingríms að umræða um fjárlög hefði ekki áður staðið lengi yfir og tók dæmi um það frá árinu 2007. Þá hafi ráðherrann sjálfur verið í stjórnarandstöðu og þá talað samtals í tvær og hálfa klukkustund. Var þá hrópað úr þingsal: „Hvað með það?“ Lagði Illugi áherslu á að þingmenn hefðu rétt til þess að tjá sig eins og Steingrímur hefði gert á sínum tíma. Þá benti hann á að áður hefðu fjárlög verið afgreidd allt fram í janúar og samt hefðu laun verið greidd út.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sökuðu Steingrím um að tala niður til þingmanna og Vigdís spurði hvort ráðherrann hefði rétt til þess að tukta þingmenn til. Sagði hún það grafalvarlegt að hann gerði tilraun til þess og einnig þau orð Margrétar Tryggvadóttur að hún réði ekki við starf sitt. Sagði hún að við slíkar aðstæður ætti þingmaður strax að kalla inn varamann og kalla eftir því að boðað yrði til kosninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert